Með atkvæðagreiðslu í síðasta mánuði bönnuðu nemendur Háskólans í Oxford lófatak. Í stað þess að gestir klappi á samkomum skólans er þess nú óskað að þeir hefji hendur til himins og hristi þær til, en slíkt látbragð er gjarnan kallað „djass-hendur“. Tilgangur bannsins er að forðast það að hávaðinn sem myndast þegar lófum er klappað saman valdi viðkvæmum kvíða.

Orðið „snjókorn“ hefur öðlast nýja merkingu í seinni tíð. Er það gjarnan notað niðrandi um ungt fólk sem sumum þykir sjálfhverft, viðkvæmt og móðgunargjarnt. Hugmyndin er ekki gripin úr lausu lofti. Bresk rannsókn leiddi í ljós að í níutíu prósentum breskra háskóla hefði stúdentaráðum tekist að hefta tjáningarfrelsið með því að banna ákveðna fyrirlesara, sérstaka hegðun, klúbba, popplög, brandara og athugasemdir svo að engum þurfti að líða illa, utangátta eða heyra eitthvað ljótt. „Verndarsvæði“ hafa sprottið upp innan háskóla þar sem boðið er upp á róandi tónlist, faðmlög, litabækur, leir og myndbönd af hvolpum.

Það er þó ekki aðeins unga fólkið sem leitast við að vopnvæða eigin viðkvæmni í baráttunni um að ná sínu fram.

Nýverið komst upp um mútugreiðslur sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu. Þótti ýmsum afhjúpunin ósvífnari en glæpurinn. Til að vernda fórnarlömb umræðunnar kröfðust stórlaxar landsins, allt frá sægreifum til ráðherra, þess að aðgát yrði höfð í nærveru sálar. „Þessir menn eiga börn,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson. „Árásir á starfsmenn Samherja,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson. „Við eigum ekki að vera að hlusta á neikvæðar fréttir um félagið,“ sagði nýr forstjóri Samherja. Sjávarútvegsráðherra hringdi í gamla forstjórann til að spyrjast fyrir um hvernig honum liði. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í Silfur Egils með móðgunargirni sem framlag sitt til rökræðna um málið. Bjarni Benediktsson strunsaði sár út úr þingsal þegar málið var rætt á Alþingi – hugmynd sem hann kann að hafa fengið frá hinum virta háskóla University College London sem tilkynnti nýverið um að nemendum í námskeiðinu „fornleifafræði styrjalda“ sé nú frjálst að ganga út úr tíma valdi námsefnið þeim uppnámi.

Úthverfi sálarinnar

Ekki eru allir á eitt sáttir við mátt móðgunargirninnar. „Við megum ekki leyfa háskólum að breytast í einhæft, bragðdauft úthverfi sálarinnar þar sem það eina sem er á matseðlinum er andlegur hafragrautur,“ sagði heiðursrektor Oxford háskóla um ritskoðunartilburði innan skólans.

Snjókorn í íslenskri valdastétt krefjast „verndarsvæðis“. Hvort sem er á götum Garðabæjar eða sölum Alþingis telja þau sig hafa rétt á að heyra ekkert ljótt. Afnemum RÚV, tökum Helga Seljan af dagskrá, setjum lögbann á Stundina, stöðvum styrki til fjölmiðla uns ekkert er eftir nema veðurfréttir, Mogginn og blað Sjálfstæðiskvenna. Því það er heilagur réttur ríkustu manna landsins að sjá sveltandi börn í Afríku aðeins á sparibaukum Hjálparstofnunar kirkjunnar er þeir tæma vasana af klinki en ekki í Sjónvarpsfréttum yfir kvöldmatnum eða í eigin martröðum. Það er réttur þeirra að fá skjól gegn orðum sem misbjóða; vinalán, veiðigjöld, skattaskjól, auðlindaákvæði. Því þeir eru fórnarlömb; fórnarlömb eigin ágætis, eigin yfirburða. Það er ekki þeim að kenna að þeir fæddust hvorki í Namibíu né Efra-Breiðholti. Þeir skulu faðmaðir, hylltir – ekki með lófataki sem styggt gæti viðkvæma lund heldur með „djass-höndum“ – því það sem við hin í einfeldni okkar skiljum ekki er að ef þeir væru ekki til staðar til að mylja ofan í okkur brauðmola, hvar myndum við þá fá brauðmola?

Það er því öllum fyrir bestu að við hreiðrum um okkur í hlýju úthverfi sálarinnar, litum, leirum, föðmumst og horfum á hvolpamyndbönd. Má bjóða þér hafragraut? Næst verða sagðar veðurfréttir.