Við rótgróna íbúðagötu í bænum stendur reisulegt Sigvaldahús og virðist að utan ekki ólíkt öðrum fjölskylduhúsum í borginni. Innan veggja er þó ekki alveg hefðbundið heimilishald. Húsið, sem kallað er Mánaberg, er úrræði Barnaverndar Reykjavíkur fyrir börn á aldrinum 0 til 12 ára sem eiga ekki í önnur hús að venda. Ástæður dvalar þessara barna eru erfiðar aðstæður heima fyrir og getur dvölin verið allt frá einum sólarhring upp í nokkra mánuði. Allt að sjö börn dvelja í húsinu hverju sinni og að dvöl lokinni fara þau heim til sín, til ættingja eða í fóstur, allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Í fullkomnum heimi væri slíkt heimili ekki til – þess væri ekki þörf – en í okkar ófullkomna en ágæta heimi finnast slík úrræði um allt. Þú, lesandi, hefur heyrt um þau, lesið eða séð í kvikmyndum en færri hafa upplifað þau á eigin skinni. Undanfarinn áratug hefur Mánaberg þó haft ákveðna sérstöðu, því að í um helmingi tilvika dvelur foreldri þar ásamt barni sínu eða börnum í svokallaðri greiningar- og leiðbeiningarvistun sem stendur almennt í sex til átta vikur. Foreldrið fær þar stuðning til að gera betur, það fær fræðslu í uppeldisfærni og fjölskyldunni er hjálpað við að efla tengslin sín á milli. Þannig er fjölskyldum skilað aftur út í samfélagið sem betri einstaklingum og þéttari einingu.

Í helgarblaði Fréttablaðsins um liðna helgi mátti lesa sögu Ásdísar Laxdal Jóhannesdóttur sem dvaldi í Mánabergi ásamt ungum sonum sínum í fjóra mánuði. Saga Ásdísar er lituð fíkn og sorgum, hún er saga konu sem átt hefur erfitt með að fóta sig í lífinu, en líka saga móður sem elskar börnin sín og vill gera betur. Með dvöl í Mánabergi fékk hún tækifæri til þess. Hún fékk handleiðslu, aðstoð og verkfæri til að verða hæfari manneskja og þannig hæfari móðir.

Árið 2021 bárust Barnavernd 4.954 tilkynningar. Árið 2021 dvöldu 83 einstaklingar í Mánabergi og er bæði starfsemi og húsnæði komið að þolmörkum. Undirbúningur að byggingu nýs húsnæðis sem betur hentar fyrir starfsemina er hafinn en samkvæmt ársskýrslu síðasta árs fór kostnaður Barnaverndar 487 milljónir yfir áætlun. Það er því ljóst að á brattann verður að sækja með slíkar framkvæmdir en meginskýring frávika í rekstri Barnaverndar er kostnaður sem hlýst af vistun barna utan heimilis í ýmiss konar úrræðum.

Það er því beinlínis þjóðhagslega hagkvæmt að verja meiri fjármunum í þennan málaflokk og skila einstaklingum hæfari út í samfélagið, með sterkari stoðir og tilbúnari í áskoranir lífsins.