Eins og vikið er að á forsíðu þessa tölublaðs Fréttablaðsins er útgáfa þess með sérstæðu sniði að þessu sinni.

Engar fréttir eru í blaðinu enda voru félagsmenn Blaðamannafélags Íslands sem starfa við fréttaskrif í blað, prófarkalesarar og ljósmyndarar í tólf klukkustunda verkfalli í gær sem hófst klukkan 10.00 í gærmorgun. Hins vegar er í blaðinu efni sem var tilbúið við upphaf verkfalls og ekki þarfnaðist frekari meðhöndlunar blaðamanns, auk aðsendra greina. Ef að líkum lætur mun þessa tölublaðs vera minnst, að minnsta kosti um hríð, fyrir vikið.

Verkföll voru á áratugum áður algeng og gátu staðið lengi og baráttan orðið illvíg. Samt er eins og yfir kjarabaráttu liðinna tíma sé rómantískur ljómi þegar menn minnast þeirra. Þá var barist fyrir réttindum sem nú þykja sjálfsögð en voru það ekki þá. Þá snerist baráttan um sárustu lágmarkskjör, hvíldartíma, veikindarétt og ýmis starfstengd réttindi. Margt hefur áunnist frá þessum tímum og vart hægt að segja annað en að barátta liðinna kynslóða hafi í þessum efnum skilað árangri.

Smám saman hefur ástæðum til beitingar verkfallsvopnsins fækkað og vinnustöðvanir orðið fátíðari. Niðurstöðum kjarasamningsviðræðna hefur í seinni tíð oftast verið náð við samningaborð án teljandi átaka.

Það er hins vegar óumdeildur réttur vinnandi fólks að leggja niður störf sem liður í baráttu sinni. Og enn gerist það endrum og sinnum að vinnustöðvun er beitt baráttuskyni. Skemmst er að minnast sjómannaverkfalls sem hófst undir lok árs 2016. Sú deila var langvinn og skip lágu bundin við bryggju vikum saman og fiskvinnslufólk í landi verklaust á meðan.

Skýrsla sem unnin var á vegum atvinnuvegaráðuneytis um mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfallsins og gerð var á meðan á því stóð, leiddi í ljós að allir töpuðu á því. Sjómenn, starfsmenn í fiskvinnslu, vinnuveitendur og íslenska ríkið. Í skýrslunni er þjóðhagslegum kostnaði verkfallsins ekki slegið föstum, en leiddar að því líkur að hann hafi numið yfir milljarði króna hvern dag sem það stóð. Ekki líklegt að það hafi unnist til baka.

Nú er það svo að verkfallið sem vísað er til var umfangsmeira og víðtækara en það verkfall sem setur mark sitt á útgáfu þessa tölublaðs. En sagan er sögð til þess að draga fram að allir tapa á verkfallsaðgerðum. Það skal ítrekað að virða á rétt manna til verkfalla til að krefjast kjarabóta og þá sem þrautavaraúrræði, þegar allt annað þrýtur. Út frá því hefur verið gengið á Fréttablaðinu.

Í undangengum verkfallsaðgerðum blaðamannna hefur þess verið gætt að virða þennan rétt og hér hafa ekki verið framin verkfallsbrot. Svo er einnig nú og því er blaðið í því formi sem raun ber vitni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að einkareknir fjölmiðlar berjast í bökkum og nægir þar að nefna rekstrartap sumra þeirra á síðasta ári sem greint hefur verið frá í fréttum. Ekki er ástæða til að ætla að sú staða hafi breyst til batnaðar á yfirstandandi ári.

Af sögunni má draga þann lærdóm að verkföll geta valdið skaða sem gæti reynst óbætanlegur.

Barátta um kaup og kjör má varla verða til þess.