Ég hef aldrei verið laghentur. Foreldrar mínir þurftu yfirleitt að lifa með flísum og rispum þegar ég kom heim úr smíðatímum og gaf þeim afraksturinn. Í áttunda bekk sætti ég mig við það að ég yrði aldrei smiður, að ég yrði aldrei brúklegur til verks á framtíðarheimili mínu. Þessu hefur Hófí, kærastan mín, fengið að kynnast, ég er gjörsamlega gagnslaus þegar eitthvað bilar eða við viljum breyta eða bæta heimilið. Ég hugsaði mér að ég myndi bara ráða fólk til verksins. Ef vaskurinn stíflast eða glugginn brotnar þá hringi ég bara í mann, ég hlýt að hafa efni á því, hugsaði ég og skráði mig í Listaháskólann. Þessu hefur Hófí ekki fengið að kynnast.
Fyrri hluti þrítugsaldursins átti vel við þetta hugarfar, þá var ég eignalaus listamaður og fyllibytta. Ef það þurfti að gera eitthvað verklegt sagði ég yfirleitt brandara, bakkaði út úr herberginu og hugsaði með mér hvað öllum hlyti að finnast ég skemmtileg og áhugaverð týpa. Eftir því sem árin liðu varð mér ljóst að ég gat ekki bakkað út úr öllum herbergjum þar sem vinna átti einhver verk, fyrst um sinn prufaði ég að djóka aðeins í fólkinu en þá kom fljótt í ljós að ég þótti ekki skemmtileg týpa, frekar þreytt eiginlega. Og við keyptum okkur íbúð, við Hófí, og það þurfti að gera eitt og annað við hana. Og þá liggur leiðin í verkfæraverslun.
Yfirleitt er mér mætt með skilningi, starfsfólkið, sumt hvert áratug yngra en ég, horfir föður- eða móðurlega á mig og hlustar. Tekur utan um mig, að mér finnst, og fylgir mér um verslunina. „Þetta heitir hamar, þú notar hann til þess að negla. Þetta er skrúfa, ekki nagli. Þetta er málband, með þessu veistu hvað hlutir eru langir.“ Og ég hlusta, agndofa og öruggur. Eins og barn að læra að lesa, eins og barn að læra að mæla, eins og þrítugt barn.