Samfylkingin vill verja heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu og á sama tíma vinna gegn verðbólgu með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru. Þetta er rauði þráðurinn í kjarapakka okkar sem var kynntur í gær og felur í sér afmarkaðar breytingartillögur við fjárlög.

Fyrir hverja stjórnar ríkisstjórnin? Það sést best nú þegar á reynir. Allt aðhald er lagt á almenning. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkar skatta með hækkun krónutölugjalda, sem falla þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur.

Þetta er pólitík sem fólk með jafnaðartaug getur ekki fallist á. Nú sýnum við að það er hægt að færa aðhaldið af almenningi þangað sem svigrúm er til staðar.

Þrettán milljarðar í kjarabætur

Samfylkingin leggur til kjarabætur til almennings upp á 13 milljarða króna. Við viljum að fallið verði frá gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar en í staðinn hækki fjármagnstekjuskattur úr 22 í 25%, sem fellur nær eingöngu á tekjuhæstu tíund landsmanna.

Boðuð stórsókn í húsnæðismálum er horfin úr fjárlögum en Samfylkingin vill tvöfalda stofnframlög til íbúðauppbyggingar í stað þess að helminga þau árið 2023.

Þá köllum við eftir því að húsnæðisstuðningur til leigjenda og vaxtabætur hækki til samræmis við hækkun húsnæðisverðs og að barnabætur lækki ekki heldur hækki um þrjá milljarða á milli ára.

Mótvægisaðgerðir gegn verðbólgu

Með mótvægisaðgerðum upp á 17 milljarða viljum við vinna gegn verðbólgu. Þær leggjast í engu á almenning en fela í sér aðhald þar sem þenslan er í raun eftir metár í fjármagnstekjum, í stórútgerð og hjá bönkunum. Samfylkingin vill loka „ehf.-gatinu“, leggja álag á veiðigjöld stærstu útgerða og afturkalla lækkun bankaskatts að hluta.

Þegar á reynir sést að ríkisstjórnin stjórnar í þágu fárra. Jafnaðarfólk vinnur fyrir almenning.