Nú þegar tæp vika er eftir af janúar og margir bíða spenntir eftir augnablikinu þegar fletta má yfir á næstu síðu dagatalsins, minntu veðurguðirnir á sig – og líka þau sem oft eru brjóstvörnin gegn ágangi þeirra. Verðirnir okkar.

Janúar er mánuður heilsuátaks, jólavísareikninga, myrkurs og kulda auk þess sem fjölmargir kjósa jafnvel að fara í gegnum hann án þess að innbyrða dropa af áfengi. Stramma sig aðeins af eftir jólaboðin og allsnægtirnar sem einkenna desember. Leiða má líkur að því að þessi atriði og fleiri fái okkur til að finnast janúar lengi að líða. Það er alls ekki sama fjörið og einkenndi mánuðinn á undan.

En nú upplifum við janúarmánuð í fyrsta sinn í miðjum heimsfaraldri, búandi við samkomutakmarkanir og verulega skerðingu á ferðafrelsi. Þjóðin sem vanalega flykkist í hópum til Tenerife í upphafi árs til að þreyja þorrann kemst nú hvorki lönd né strönd; hvað þá á þorrablótin sem í eðlilegu árferði væru ákveðið ljós í myrkrinu. Svona miðað við stöðuna er þetta líklega lengsti janúarmánuður í manna minnum og ekki eru fréttir af veðri og færð til að lífga upp á stemninguna.

Í liðinni viku voru hús rýmd á Siglufirði, Flateyri og Ísafirði vegna yfirvofandi snjóflóðahættu, rýmingu hefur nú verið aflétt en snjóalög eru enn það óstöðug að fólk er hvatt til að fara að öllu með gát.

Vegurinn til Flateyrar er nú lokaður af sömu ástæðu og hefur verið að mestu frá því á laugardag.

Ekki er nema rétt rúmt ár síðan snjóflóð féllu í byggð og á höfnina á Flateyri og þó að Flateyringar prísi sig sæla að enn sé veturinn ekki jafn snjóþungur og í fyrra, má ímynda sér að ýmislegt fari um huga heimamanna á þessum árstíma. Snjóflóðin sem féllu í fyrra rifjuðu upp sárar minningar frá árinu 1995 þegar mannskætt flóð féll á byggðina.

Nú um helgina var björgunarsveitin Hafliði frá Þórshöfn kölluð út. Flytja þurfti sjúkling frá Þórshöfn til Akureyrar en vegna aftakaveðurs var sjúkraflug ekki kostur. Vegurinn yfir Hófaskarðið var í ofanálag ófær og björgunarsveitin því fengin til að fylgja sjúkrabílnum yfir. Í aftakaveðri ruddu þau einu leiðina fyrir veikan einstakling að komast undir læknishendur.

Án þeirra sem fórna frítíma sínum í erfiðisverkefni sem þetta er ekki vitað hvað hefði orðið um viðkomandi sjúkling. Við vitum aftur á móti að unglingsstúlkan sem grófst undir flóðinu á Flateyri fyrir ári hefði ekki komist af nema fyrir hjálp björgunarsveitanna.

Það er enn svolítið eftir af janúar og það gæti verið langur vetur fram undan. Þessi misserin erum við daglega minnt á að við séum öll í þessu saman og það gildir svo sannarlega líka um framlínuverðina sem reiða sig á okkur, bakverðina.

Munum það á meðan við reynum að keyra upp stemninguna!