Um þessar mundir spyr sjö ára sonur minn mig stöðugt alls kyns spurninga. Sumar þeirra eru mjög krefjandi. Hvaðan koma öll dýrin? Af hverju tölum við íslensku? Hvort ykkar pabba bjó mig meira til? Eftir að ég sýndi honum hvernig hægt er að spyrja internetið ýmissa spurninga; hvernig hægt er að gúgla, kemst ég ekki upp með að ekki svara. Mamma: gúglaðu bara! Ein af spurningum helgarinnar var hvort veiran yrði búin um jólin. Ég gat að vísu ekki beinlínis gúglað svarið við spurningunni um hvenær þetta yrði allt að baki, en við mæðgin áttum gott spjall um ástandið sem hvílir þungt á öllum aldurshópum.

Það er mikilvægt að við eigum skoðanaskipti um ástandið og lausnir á því. Síðastliðnir mánuðir hafa verið mikill prófsteinn á okkur sem samfélag en líka á okkur sem manneskjur í samfélagi við aðra. Það er nauðsynlegt að ræða borgaraleg réttindi og frelsi einstaklingsins, mögulega meira nú en nokkru sinni fyrr. Þessi réttindi eru afrakstur aldalangrar baráttu borgara sem sumir hverjir greiddu fyrir þau með lífi sínu. Við tökum þessum réttindum orðið sem sjálfsögðum en þau eiga víðs vegar undir högg að sækja, jafnvel í nágrannaríkjum okkar. Þeir sem hafa haldið hér uppi málefnalegri umræðu varðandi lögmæti aðgerða og ábyrgð stjórnvalda eiga því hrós skilið. Það ættu fleiri en sjö ára börn að spyrja hér spurninga.

Að mörgu leyti erum við enn óupplýst hvað faraldurinn varðar. Við vitum þó fyrir víst að ein dýpsta efnahagslægð í heila öld gengur nú yfir og við stöndum frammi fyrir breytingum sem munu hafa víðtæk áhrif á samfélagið okkar. Við þær aðstæður er gott að hafa við stjórnvölinn fólk sem leggur áherslu á frjálst framtak, atvinnufrelsi, fríverslun og frelsi einstaklingsins. Öll heimsbyggðin glímir við faraldurinn á einn eða annan hátt, en aðstæðurnar eru æði misjafnar. Íslenska ríkið býr að því að hér hafa fjármál ríkisins verið byggð á traustum grunni. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið vel um taumana í fjármálaráðuneytinu síðastliðin ár og beitt sér fyrir stórfelldri lækkun skulda ríkissjóðs. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að sjá dæmi hér innanlands um hið gagnstæða. Vinstri meirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur safnað skuldum í borginni í meira en aldarfjórðung. Skatttekjur borgarinnar hafa vaxið, en bara ekki jafn mikið og vonað var. Það skapar neyðarástand í ráðhúsinu og ákall um ríkisaðstoð!

Leiðin út úr kreppunni verður best rötuð með sjálfstæðisfólk í fararbroddi. Sjálfstæðisfólk sem talar fyrir nauðsyn verðmætasköpunar í einkageiranum og fyrir fjölbreyttu atvinnulífi. Sjálfstæðisfólk sem eflir nýsköpun og skilur að hún er nauðsynleg til þess að halda hér áfram uppi samkeppnishæfu samfélagi. Sjálfstæðisfólk sem skilur að frjáls alþjóðleg viðskipti eru undirstaða hagsældar á Íslandi og leggur því áherslu á mikilvægi þess að styðja við íslenskan útflutning á sama tíma og það talar fyrir alþjóðlegri samvinnu, mannréttindum og lýðræði, ekki síst í baráttunni gegn heimsfaraldri.

Þegar drengurinn minn verður nógu gamall til þess að meta atburði líðandi stundar mun hann án nokkurs vafa spyrja alls kyns erfiðra spurninga. Það kemur jú í hlut yngri kynslóða að greiða þær skuldir sem koma okkur nú í gegnum erfiða tíma. Hvert verður svarið? Að fórnir þeirra í okkar þágu hafi verið þess virði að færa þær? Margir telja sig vita svarið – og það fyrir þeirra hönd.

Höfundur er aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.