Gefum okkur þá sviðsmynd að öll útlán fjármálakerfisins séu verðtryggð. Gefum okkur síðan að þau atvik verði að peningamagn í umferð eykst umfram vöxt raunhagkerfisins og verðbólguþrýstingur myndast. Hagkerfið fer þá í þann ham að ryðja sig þannig að misgengi raunhagkerfis og peningamagns í umferð jafnist út með hækkun nafnverðs vöruflórunnar.

Verðbólga er náttúrulegt fyrirbrigði sem verður þegar misgengið áðurnefnda myndast.

Þegar allar fjármálalegar eignir eru verðtryggðar nær hagkerfið ekki að ryðja sig, verðtryggingin bætir jafnóðum við peningamagnið með verðbótaþætti á lánin. Verðbólgan fer þá í viðvarandi spíral.

Ef hluti hinna fjármálalegu eigna er óverðtryggður nær hagkerfið að ryðja sig í gegnum þær. Rýrnun hinna óverðtryggðu eigna verður þannig hlutfallslega meiri eftir því sem verðtryggðar eignir eru hærra hlutfall fjármálalegra eigna. Þannig er ljóst að eftir því sem verðtryggðar eignir eru hærra hlutfall allra fjármálalegra eigna verður áhættan meiri á hinum óverðtryggðu sem leiðir beint til þess að þær bera hærri vexti en ella.

Verðtryggingin leiðir þannig til truflunar á náttúrulegri aðlögun hagkerfisins sem leiðir til fjármálalegs óstöðugleika, þar með talið hærri vaxta á óverðtryggðum eignum.

Verðtryggingu var komið á vegna þess að við sem samfélag gáfumst upp á að glíma við rót vandans, misgengið milli vaxtar raunhagkerfisins og peningamagnsins. Verðtrygging truflar sýn á þá viðvarandi glímu.

Við eigum eftir að lifa með krónunni um langt skeið enn. Afnám verðtryggingar er ein forsenda þess að óhjákvæmilegt samlíf okkar með krónunni verði bærilegt.