Þrátt fyrir samkomubann og stöðug skilaboð um að allir sem geta, haldi sig heima er stór hluti samfélagsins enn að störfum. Öll erum við þakklát fyrir almannavarnir og heilbrigðisstarfsfólk sem er að vinna öllum stundum að því að tryggja öryggi okkar, en starfsstéttirnar eru f leiri sem mæðir á. Þar má nefna starfsfólk skóla, fólk í framlínustörfum eins og verslun, þjónustu og ræstingum og fólk sem starfar í velferðarþjónustu við umönnun, stuðning og ráðgjöf. Þessi störf halda samfélaginu gangandi og sýna nú sem aldrei fyrr mikilvægi sitt. Í dag eru þetta verðmætustu störf samfélagsins.

Nýjar leiðir í Reykjavík

Í Reykjavík hefur öll velferðarþjónusta verið stokkuð upp til að tryggja sóttvarnir en á sama tíma eins og kostur er órofna þjónustu. Mörgu getum við sinnt í gegnum netið eða símann en ekki því sem krefst mannlegrar nærveru eða umönnunar. Öll þurfum við að halda áfram að fara í bað, fá til okkar mat og vera í einhverri virkni og samtali við umheiminn og sum okkar þurfa aðstoð til þess. Sú þörf minnkar ekki þó ógn steðji að nema síður sé.

Órofin þjónusta

Fólk sem starfar í heimahjúkrun, heimaþjónustu, á hjúkrunarheimilum, sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða eða stuðningi við fatlað fólk á heimilum sínum sinnir áfram sínum mikilvægu störfum af kostgæfni. Hluti dagþjálfunar og skammtímavistunar er áfram opinn fyrir þá sem þurfa enda er þjónustan forsenda lífsgæða. Öðrum er sinnt heima með einstaklingsmiðuðum stuðningi. Okkur er umhugað um að allir sem þurfa eða vilja fái þjónustu, verið er að hringja í alla 80 ára og eldri og þeim sem fá heimsendan mat hefur fjölgað verulega.

Þjónusta fyrir heimilislaust fólk og fólk sem þarf stuðning vegna áfengis- og vímuefnaneyslu hefur verið aukin. Stuðningur félagsráðgjafa og Barnaverndar inn á heimili fólks þar sem heimilisof beldi á sér stað er til taks, því fyrir suma er heimilið því miður, hættulegasti staðurinn.

Stuðningur við barnafjölskyldur

Foreldrar barna sem fá stuðning í skóla eða eru á biðlista eftir stuðningi munu á næstunni fá símtal frá skólaþjónustu með boð um aðstoð umfram það sem skólarnir eru að bjóða. Til að mæta foreldrum og börnum, þar sem dregið er úr starfsemi skammtímavistunar fyrir fötluð börn, er lögð áhersla á að starfsmenn fari heim til fjölskyldna og að börn og unglingar fái þjónustu í skammtímavistuninni í smærri hópum. Það er þó þannig að álag á fjölskyldur eykst á svona tímum og sérstaklega álag á fjölskyldur barna sem þurfa mikla umönnun, það þurfum við sem samfélag að vera meðvituð um. Barnavernd starfar áfram og í samvinnu við skólana viljum við styðja við fjölskyldur borgarinnar í gegnum þetta tímabil með forvörnum og þjónustu.

Velferð forsenda verðmætasköpunar

Mörg þessi mikilvægu velferðarstörf eru okkur hulin dag frá degi, en á þessum tímum held ég það sé gott að við minnumst þeirra með því þakklæti sem þau eiga svo sannarlega skilið. Velferðarþjónusta er forsenda góðs samfélags og verðmætasköpunar og þess vegna munum við í Reykjavík leggja okkur öll fram um að veita áfram góða velferðarþjónustu, ekki bara á neyðartímum.