COVID-19 heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum hafa skapað margar nýjar áskoranir fyrir íslenskt samfélag líkt og önnur. Nýlega hafa heyrst raddir þess efnis að greiða skuli starfsmönnum ríkisins laun í heimkomusmitgát, líkt og hefur verið tilfellið fyrir fólk í sóttkví – að ekki ætti að gera greinarmun á þessu tvennu. Heimkomusmitgát felst í því að íslenskir ríkisborgarar og aðrir búsettir hér á landi haldi sig til hlés í eilítið vægari útgáfu af sóttkví í fjóra til fimm daga að lokinni fyrstu sýnatöku við komu til Íslands og fari þá í seinni sýnatöku. Sé síðari sýnataka neikvæð er heimkomusmitgát hætt. Ljóst er að margir einstaklingar í heimkomusmitgát munu ekki geta sinnt störfum sínum meðan á henni stendur og telur BHM til að mynda að bæta eigi starfsmönnum ríkisins vinnutapið.

Frá sjónarhóli hagfræðinnar er hægt að færa rök fyrir því að launagreiðslur í heimkomusmitgát myndu valda samfélagslegu tjóni. Slíkar greiðslur tækju ekki tillit til raunverulegs kostnaðar vegna utanlandsferða og myndu þannig skapa vafasama hvata í samfélaginu. Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því að á tímum COVID-19 fellur raunverulegur kostnaður utanlandsferðar ekki einungis á þann einstakling sem kýs að ferðast, heldur einnig á aðra óviðkomandi aðila vegna þeirrar áhættu sem í ferðalaginu felst. Það getur leitt til þess að fjöldi utanlandsferða verður meiri en talist getur þjóðhagslega hagkvæmt.

Ímyndum okkur að einstaklingur sem ferðast til útlanda þyrfti að samþykkja að bera allan kostnað af ferðinni – ekki bara flugmiðann og hótelið heldur einnig vegna sýnatöku, mögulegrar smitrakningar ef hann greinist með veiruna, vinnutap og kostnað annarra sem kynnu að smitast vegna hans, o. s. frv. Slíkur einstaklingur myndi líklega ekki halda utan nema það veitti honum þeim mun meiri ánægju eða ef brýna nauðsyn bæri til. Einstaklingur sem þyrfti einungis að borga fyrir það hefðbundna sem snýr að ferðalaginu og velti öðrum kostnaði á aðra væri hins vegar talsvert líklegri til að taka áhættu sem gæti þótt þjóðhagslega óhagkvæm.

Við búum við afar óvenjulegar aðstæður og hið opinbera ætti að varast að skapa hvata til óhóflegrar áhættusækni á sama tíma og það berst við að takmarka tjónið sem hlýst af COVID-19.

Í ljósi þess gríðarlega samfélagslega kostnaðar sem getur fylgt ferðalögum Íslendinga erlendis væri óvarkárt að skapa frekari hvata til slíkrar hegðunar. Nú þegar er ósamræmi í áhættu og kostnaði líkt og nefnt hefur verið að ofan, en greiðsla launa í heimkomusmitgát myndi búa til enn meiri hvata til óhóflegrar áhættusækni. Launatap í heimkomusmitgát væri dæmi um kostnað sem einstaklingur þyrfti að taka til greina þegar hann tæki ákvörðun um hvort halda skyldi í utanlandsferð – ef sá kostnaður væri ekki fyrirséður aukast líkurnar á að ákveðið væri að fara í slíka ferð. Væru laun greidd í heimkomu­smitgát má í raun segja að einstaklingur, sem er ekki í þeirri stöðu að geta sinnt sínu starfi að heiman, sé beinlínis verðlaunaður fyrir áhættutökuna, því hann „græðir“ allt að fjóra til fimm launaða frídaga til viðbótar. Jafnvel þó einhverjar skorður yrðu settar þessu tengdar, kemur ekkert í veg fyrir að slíkur einstaklingur fari í sumarbústað, í versta falli er hægt að slaka á heima og njóta lífsins. Þetta myndi auka enn á ójafnvægi kostnaðar og áhættu vegna ferðarinnar. Í samanburði mun ábyrgur einstaklingur sem kýs að ferðast innanlands og gæta ítrustu varkárni þurfa að sætta sig við færri frídaga en samstarfsmaðurinn sem tók meiri áhættu. Ekki er það til þess fallið að hvetja fólk til að fara að öllu með gát, samfélaginu til hagsbóta.

BHM gætir eðli máls samkvæmt hagsmuna félagsmanna sinna. Undir venjulegum kringumstæðum væri ósanngjarnt að banna fólki að mæta til vinnu og neita því jafnframt um laun. Við búum hins vegar við afar óvenjulegar aðstæður og hið opinbera ætti að varast að skapa hvata til óhóflegrar áhættusækni á sama tíma og það berst við að takmarka tjónið sem hlýst af COVID-19. Ábati ferðalangsins, flugfélagsins, hótelsins og annarra þátttakenda í þeim viðskiptum, er að því er virðist langtum minni en samfélagslegi kostnaðurinn sem felst í sýnatöku, eftirliti, smitrakningum og mögulegri lömun hagkerfisins ef allt fer á versta veg.

Höfundur er formaður Hagsmunafélags kvenna í hagfræði.