Þingmenn sem kalla eftir þjóðar­atkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið um þessar mundir eiga skilið verðlaun fyrir þrautseigju og bjartsýni.

Þeir halda áfram baráttunni þrátt fyrir að einungis örfáir mánuðir séu liðnir frá þingkosningum þar sem Evrópuflokkarnir hlutu einungis 18 prósent atkvæða. Það er jú eðlilegur undanfari þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu að meirihluti þingmanna sé hlynntur inngöngu.

Nú reynir forystufólk Samfylkingarinnar og Viðreisnar að nýta innrás Rússa í Úkraínu til að þjappa þjóðinni saman um inngöngu í Evrópusambandið. Sá málflutningur höfðar óvænt til stórs hóps kjósenda því samkvæmt skoðanakönnun Gallup hefur stuðningur við inngöngu aukist í 47 prósent en þriðjungur er andvígur. Afstaðan hefur breyst hratt. Til samanburðar var 31 prósent Íslendinga hlynnt inngöngu í sambandið í desember ef marka má könnun MMR en 44 prósent andvíg.

Þetta er forvitnileg þróun í ljósi þess að Evrópusambandið hefur lítið fram að færa í varnar- og öryggismálum. Þetta virðast Norðmenn vita mætavel enda hefur þeirra afstaða ekki sveiflast til þrátt fyrir voðaverk Vladímírs Pútín, einræðisherra Rússlands, samkvæmt skoðanakönnun sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Lykillinn að öryggi Íslands og 29 annarra ríkja er Atlantshafsbandalagið. Ekki Evrópusambandið, hvað þá EES-samningurinn. Meira að segja 49 prósent kjósenda Vinstri grænna, sem lengst af hafa verið á móti hernaðarbandalaginu, eru nú hlynnt veru okkar í NATO, samkvæmt skoðanakönnun Prósents. Fjöldi friðarsinna áttar sig því á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins á viðsjárverðum tímum.

Það er mikilvægt að innganga í Evrópusambandið sé á réttum forsendum. Rétt eins og útganga Breta var á röngum forsendum. Fjöldi Breta á landsbyggðinni kaus með Brexit af ótta við að annars myndu útlendingar hirða störfin af þeim. Hræðsla við alþjóðavæðingu réði því för. Að sama skapi eigum við ekki að sækja í bandalagið í ljósi hernaðarbrölts Rússa. Það skiptir sköpum að grunnforsendurnar séu skynsamlegar.