Íslenska hasarmyndin Leynilögga hefur slegið í gegn. Vinsældirnar virðast þó hafa keyrt adrenalín aðstandenda í botn þegar þeir tilkynntu að frumsýningarhelgin væri sú tekjuhæsta frá upphafi og fimmtán ára met Mýrarinnar, eftir Baltasar Kormák, fallið. Samkvæmt tilkynningunni náði Leynilöggan 15.941.412 krónum um helgina á móti 15.807.800 hjá Mýrinni 2006. Í þessum útreikningum gleymdist að vísu breyta sem gerir landanum lífið leitt því uppreiknað miðað við verðbólgu stendur Mýrin nokkuð örugg í 26.167.500 krónum.

Aldarspegill

Viðhorfahópur Gallup fékk nýlega áhugaverðar spurningar að glíma við og ætla má að verið sé að kanna á hvaða öld Íslendingar telja sig lifa. Meðal fullyrðinga sem fólk er beðið að taka afstöðu til eru „sannir karlmenn gráta ekki“ og „staða konunnar er á heimilinu“. Áhugaverðar spurningar sem væntanlega munu skila enn áhugaverðari niðurstöðum. Ekki síður en fullyrðingin „svört atvinnustarfsemi á aldrei rétt á sér“, en svörin gætu mögulega skorið úr um hvort það standist sem stundum er haldið fram að Íslendingar séu á móti spillingu þangað til þeir komast sjálfir í hana.