Á sunnudagskvöldum safnast góður partur þjóðarinnar saman við sjónvarpið og horfir á Verbúðina í línulegri dagskrá. Líklega hefur áhorf ekki verið svona mikið á þáttaröð frá því upplýsingafundir þríeykisins voru upp á sitt besta, þið munið.

Þetta eru frábærir þættir og sá hluti áhorfenda sem hefur aldur til speglar sig í bæði persónunum og tíðaranda. Sjálf ólst ég upp í sjávarþorpi og þykist fyrir vikið hafa sérstaka innsýn. Man eftir drykkjusjúklingunum sem rúlluðu niður á bryggju rétt fyrir brottför og létu renna af sér á útstíminu.

Man eftir að hafa unnið langt fram eftir kvöldi við að „bjarga verðmætum“ og mætt svo hálfsofandi í skólann daginn eftir. Verst ef þetta var á miðvikudagskvöldum því þá var líka Dallas og við áttum ekki vídeótæki.

Svo voru partí sem maður átti ekkert erindi í, ef einhver hefði spurt um nafnskírteini, en dópið var meira í Bubbatextum í Lögum unga fólksins.

Það var hlegið að þeirri vitleysu að unnt yrði að veðsetja óveiddan fiskinn, þvílík fásinna. En það varð raunin, veiðirétturinn hvarf úr höndum litlu útgerðanna og samþjöppunin og svikin pólitísk loforð gerðu auðlindina að peningakrana hinna fáu útvöldu.

Við erum líklega að horfa á sambærilega þróun fyrir augum okkar nú í ferðaþjónustunni. Frumkvöðlar í litlum rekstri eru að hverfa fyrir samþjöppun í greininni og það gerist hraðar en ella í skjóli faraldursins.

Og í London, París og Róm lifir fólk sínu daglega lífi, alls óafvitandi um að það er löngu búið að veðsetja ferðahegðun þess upp í rjáfur, þó að það hafi enn ekki heyrt minnst á eyjuna nyrst í ballarhafi.