Íslenskt samfélag hefur alla burði til þess að taka á móti þeim útlendingum sem hér vilja setjast að. Við erum þrátt fyrir allt ríkt samfélag. En það er jafn ljóst að sú stefna sem unnið hefur verið eftir í móttöku flóttafólks hér á landi og byggir á því að reka dýrt félagslegt neyðarkerfi fyrir flóttafólk á flestum útnárum landsins, oftar en ekki í tekjuöflunarskyni fyrir minni sveitarfélög, er hvorki hagkvæm né sérstaklega mannúðleg.

Við eigum að opna fleiri dyr fyrir fólki sem langar að búa hér, starfa og ala upp börn, óháð því af hvaða þjóðerni það er, hvernig það er á litinn eða hvaðan það kemur úr heiminum. Hið félagslega neyðarkerfi sem sett hefur verið upp fyrir fólk í þörf fyrir alþjóðlega vernd verður að vera til staðar, en það ætti ekki að þurfa að virka eins og neyðarinnlögn á Vogi sem verður eina færa leiðin í meðferð af því allar aðrar eru lokaðar.

Það er fáránleg krafa að ætlast til þess að hver einasti maður sem hingað kemur í von um betra líf þurfi að sýna fram á að hann sé í bráðri lífshættu í heimalandi sínu.

Sveiflur í atvinnuleysi hafa ekki breytt því að stöðug mannekla virðist hrjá fjölmörg svið atvinnulífsins. Reglulega hefur þurft að loka deildum á leikskólum borgarinnar vegna manneklu. Frístundaheimili stríða við sama vanda. Heilbrigðiskerfið hefur verið á hliðinni um árabil vegna læknaskorts og ómannúðlegs álags á stétt hjúkrunarfræðinga. Það hefur ekki verið viðlit að ráða iðnaðarmann til starfa hér um árabil. Á sama tíma hafa verið sett allt of þröng skilyrði fyrir því að fólk sem ekki er evrópskir ríkisborgarar fái að flytjast hingað. Trúir því einhver að franskir píparar séu undantekningarlaust betri en egypskir eða mexík­óskir? Býr eitthvað annað þar að baki en andúð á þeim sem koma lengra að, trúa á annan guð eða eru öðruvísi á litinn en við?

Verkalýðshreyfingin hefur um áratugaskeið barist gegn því að opna íslenskan vinnumarkað fyrir áhugasömum útlendingum og stjórnmálastéttin hefur staðið sína plikt með rammgerðri löggjöf gegn fólki sem hefur ekki önnur markmið en að vinna og auðga íslenskt samfélag.

Nú hafa fjölmiðlar herjað á félags- og barnamálaráðherra í leit að túlkun hans á grundvallarreglu Barnasáttmálans um að hagsmunir barns eigi að ráða för í ákvörðunartöku sem varðar þau beint. Ef velferð barna er ráðherranum þyrnir í augum, hefur hann tækifæri til að opna dyrnar á öðru málefnasviði ráðuneytis síns og svara kalli íslensks almennings um manneskjulega stefnu í útlendingamálum.

Það er allt of erfitt fyr­ir ein­stak­linga frá lönd­um utan Evrópska efnahagssvæðisins að fá at­vinnu­leyfi á Íslandi. Fyrir því eru hvorki gildar né málefnalegar ástæður. Það verður einfaldlega að endurskoða regl­ur um at­vinnu­leyfi og rýmka heim­ild­ir út­lend­inga til að koma hingað til að starfa.

Það er ekki fyrsta val allra sem til okkar leita að óska eftir neyðaraðstoð. En á meðan allar eðlilegar leiðir inn í landið eru lokaðar er hún eina leiðin.