Við Íslendingar erum heppin að þeir sem á undan gengu höfðu kjark og þor til þess að fara ótroðnar slóðir í orkumálum. Það er fyrir tilstuðlan stjórnmálamanna um miðja síðustu öld að við getum nú boðið ferðamenn velkomna í hlýjuna hér á Íslandi í vetur á meðan stærstu efnahagsríki heimsins geta ekki hitað upp húsin sín vegna orkuskorts og hækkunar á verði vegna stríðsins í Úkraínu.

Það má öllum vera ljóst að hitaveituvæðingin um miðja síðustu öld var ekki átakalaust ferli. Hitaveita var ekki þekkt fyrirbæri og auðveldara hefði verið að halda sig við þekktari orkugjafa, til að mynda gas. Það gleymist gjarnan að hér á landi var rekin gasstöð fram á miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Græn orkuskipti

Sparnaður af notkun hitaveitu til húshitunar var metinn um 110 ma. kr. á ári. Gera má ráð fyrir því að sú tala hafi hækkað verulega síðan stríð braust út í Evrópu. Það þarf því ekki að eyða mörgum orðum í það hversu heppin við erum að þeir sem á undan gengu hafi tekið hugrökk skref í áttina að sjálfbærni í orkumálum. Við getum einnig verið þakklát fyrir það að hugmyndir um lagningu sæstrengs hafa ekki náð fram að ganga.

Nú stöndum við frammi fyrir gífurlega stórum áskorunum vegna markmiða okkar, og heimsbyggðarinnar, í loftslagsmálum. Markmiðin kalla á græn orkuskipti og allsherjar sjálfbærni Íslands í orkumálum.

Til þess að við náum markmiðum okkar þurfum við áfram sjálf á allri okkar orku að halda og jafnframt huga að því að afla meiri orku og nýta betur þá kosti sem við búum þegar að.

Við stöndum frammi fyrir sambærilegum áskorunum og tækifærum og þeir sem lögðu í hitaveituvæðinguna. Græn orkuskipti koma okkur langt í loftslagsmálum næstu tvo til þrjá áratugina. En líkt og með hitaveituna munu komandi kynslóðir njóta góðs af okkar skrefum. Það þarf kjark og þor. En það mun borga sig.

Pistlahöfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.