Á undan­förnum mánuðum hefur sam­starf verið mikið milli hins opin­bera og einka­rekna heil­brigðis­kerfisins eins og Ís­lenskrar erfða­greiningar og fleiri fyrir­tækja vegna út­breiðslu kóróna­veirunnar. Blandaður rekstur hins opin­bera og einka­reksturs hefur því sannað sig. Þannig er einnig heil­brigðis­kerfi Norður­landanna byggt upp og höfum við helst viljað bera okkur saman við það í svo mörgu.

Nú bíða 1200 ein­staklingar eftir lið­skipta­að­gerð hér á landi. Bið­listar lengjast, á­stand sjúk­linga versnar og einka­reknar skurð­stofur standa til­búnar. Allt vegna pólitískra prinsippa heil­brigðis­ráð­herra sem vill ekki ljúka samningum við ís­lenskar einka­reknar skurð­stofur, en greiðir í stað þess með sjúk­lingum sem sendir eru með flugi og fylgdar­manni á einka­reknar skurð­stofur í Sví­þjóð eða til annarra Evrópu­landa. Prinsippin ná ekki milli landa og greini­legur munur er að mati heil­brigðis­ráð­herra þegar kemur að því að gera samning við einka­reknar skurð­stofur í Sví­þjóð eða á Ís­landi. Ein­mitt núna í dýpstu efna­hags­lægð landsins skiptir máli að standa vörð um ís­lenskt efna­hags­líf og öf lugt heil­brigðis­kerfi. Það gerum við með því að velja ís­lenskt, já eða nema þegar kemur að lið­skipta­að­gerðum, þá skal velja sænskt, eða hvað?

Skoðum að­eins kostnaðinn. Lið­skipta­að­gerð kostar um 1,2 milljónir króna sé hún gerð hér heima á einka­rekinni skurð­stofu og ríkið fær til baka 450 þúsund í formi skatta. Sé lið­skipta­að­gerðin fram­kvæmd í Sví­þjóð er upp­hæðin um 1,8 milljónir sem sjúkra­trygginga­kerfið greiðir og ekkert kemur til baka í ríkis­sjóð, allt vegna pólitískra prinsippa. Bið eftir lið­skipta­að­gerð hér á landi er um eitt ár, en við þá bið bætist við margra mánaða bið við að komast á bið­listann. Á meðan eru margir sem bíða eftir lið­skipta­að­gerð ó­vinnu­færir og með skert lífs­gæði.

Klíníkin í Ár­múla hefur gengið á eftir samningi við Sjúkra­tryggingar Ís­lands í langan tíma og ef samningar næðust við Klíníkina fækkaði sjúk­lingum á bið­listum um 400-600 manns.

Sjúk­lingurinn hefur ekkert val, á meðan val og vald stjórn­valdsins til að leysa málin og lina þjáningar sjúk­lingsins er allt. Sjúk­lingar geta skipt beint við einka­reknu skurð­stofuna án nokkurrar niður­greiðslu frá Sjúkra­tryggingum Ís­lands, kerfið stuðlar því að efna­hags­legum ó­jöfnuði en það er varla það sem við viljum.

Það þarf kjark og þor til að taka á­kvörðun og ljúka samningi milli Sjúkra­trygginga Ís­lands og einka­rekinna skurð­stofa og standa þannig með sjúk­lingnum. Ég skora á yfir­völd að láta heil­brigða skyn­semi ráða í ís­lensku heil­brigðis­kerfi í stað þess að láta stjórnast af pólitískum prinsippum.