Á Íslandi eru tugir fyrirtækja sem flokka má sem afurðafyrirtæki í landbúnaði. Hér er átt við mjólkurbú og -framleiðslufyrirtæki, stór og smá sláturhús, kjötvinnslur, ullarfyrirtæki og svo mætti áfram telja. Undirritaður þekkir vel til margra þessara fyrirtækja og flest leggja þau mikla áherslu á fagmennsku og gæði. Sum þeirra hafa gengið á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum, eins og til að mynda Sölufélag garðyrkjumanna, sem hefur kolefnisjafnað allan flutning frá bónda í búð. Vel færi á því að aðrir myndu fylgja því fordæmi.

Umhverfisábyrgð í verki

Sum þessara afurðafyrirtækja hafa sýnt umhverfisábyrgð á annan hátt. Sláturfélag Suðurlands var í forystu þeirra sem hættu að flytja inn fóðurbæti sem innihélt Roundup-mettaðar afurðir stórtæks eiturefnalandbúnaðar. Eftir að sauðfjárbændum tókst að fá í gegn bann við notkun á slíkum afurðum í sínum ranni hefur innflutningur á þeim dregist verulega saman. Nú er svo komið að réttast væri að setja blátt bann við notkuninni og undirstrika þar með enn betur hreinleika og sérstöðu íslensks landbúnaðar. Það myndi styrkja stöðu íslenskra bænda, sjávarútvegs og ferðaþjónustu.

Sérstakir velferðarsamningar

Nú færist í vöxt að erlendar afurðastöðvar geri sérstaka dýravelferðarsamninga við þá bændur sem þær eiga í viðskiptum við. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar í þessa veru hér með verkefnum eins og gæðastýringu í sauðfjárrækt og fyrirmyndarbúum kúabænda. En það er enn sem komið er aðeins eitt íslenskt afurðafyrirtæki sem gerir velferðarsamninga við alla sína bændur.

Fyrirmynd í dýravelferð

Um er að ræða líftæknifyrirtæki sem vinnur lyfjaefni úr hryssublóði. Það er til mikillar fyrirmyndar þegar kemur að dýravelferð, enda blóðtakan öll undir eftirliti dýralækna og Matvælastofnunar og úr vinnslan undir ströngustu alþjóðlegu lyfjastöðlum. Þótt dýravelferð sé almennt með ágætum í íslenskum landbúnaði, enda lög og reglur hér með þeim ströngustu í heimi, væri það greininni efalaust til framdráttar ef slíkir dýravelferðarsamningar milli bónda og afurðafyrirtækis yrðu að meginreglu.