Í Bibliu Gamla testamentisins er boðskapurinn þannig að Guð skapaði jörðina, allar lífverur og síðast mannfólkið og sagði því: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“

Já, menn hafa fjölgað sér fram yfir það sem sem jörðin ber. Menn eru ennþá að drottna yfir jörðinni þannig að vistkerfin hrynja og lífið á jörðu mun verða komandi kynslóðum mun erfiðara en nú til dags.

En snúum okkur að öðrum lífverum sem búa á þessari plánetu. Dýrin hafa haldið lífinu í mönnunum með því að gefa þeim mat (við slátrum og mjólkum þau), þau gefa ull, skinn og leður til að klæða okkur, gefa mönnum kraftana sína til að bera og draga. Án hjálpar dýranna væri mannfólkið illa sett.

Hvernig hugsum við svo um dýrin okkar? Hér á Íslandi var til dæmis hesturinn þarfasti þjónninn öldum saman. Án hesta hefðu menn varla þraukað. Núna hafa tól og tæki tekið við og hesturinn er notaður í tómstundagaman. En bara það? Sorglegar fréttir bárust um meðhöndlun svonefndra blóðmera.

Hálftamdar fylfullar hryssur eru píndar í bása til að tappa blóð af þeim. Hormóna í þessu blóði geta menn notað til þess að auka frjósemi gyltna í svínabúum. Og eftir að merin er búin að fæða folaldið sitt er það yfirleitt tekið frá henni og því slátrað nema það sé kvenkyns. Þá er hægt að nota það í sama tilgangi seinna.

Erum við menn virkilega að hunsa það að dýrum þyki vænt um afkvæmin sín? Við vitum lítið um þjáningar og tilfinningar dýramömmunnar við að missa barnið sitt. Þær geta ekki sagt frá. En við sjáum það á hegðun þeirra. Læða sem er búin að gjóta kettlingum fer vælandi um í marga daga þegar menn taka þá og drekkja (eins og þótti regla í gamla daga).

Kýrin baular sárt þegar hún er búin að bera kálfi og hann er tekinn strax frá henni. Ég fylgdist í sumar með þegar ekið var á tjaldsunga á þjóðveginum. Fullorðni fuglinn hljóp fram og aftur út á götuna og reyndi að endurvekja ungann sinn þrátt fyrir hættuna.

Hestamömmu er sennilega mikil raun að fá ekki að halda folaldinu sínu sem hún gekk með í tæpt ár. Svo er hún gerð fljótlega aftur fylfull og sama sagan endurtekur sig ár eftir ár þangað til hún er slitin og ónýt eftir alla blóðtökuna og allar fæðingarnar. Gleymum heldur ekki því að blóðmerar eru á útigangi og oft ekki of vel haldnar.

Ef þetta er ekki ómannúðlegt þá veit ég ekki hvað.

Dýrahaldið hjá okkur er víða bágborið og fyrst og fremst drifið áfram í hagnaðarskyni þótt mörgum þyki vænt um dýrin sín. Það að Matvælastofnun, sem sér fyrst og fremst um framleiðslu matvæla, skuli fara með mál um velferð dýra er af og frá. Framleiðni matvæla á sem hagkvæmastan hátt gengur greinilega á rétt dýra til að þau geti lifað góðu lífi á sínum eigin forsendum.

Sama hvort við skoðum dýrahaldið í flestum svínabúum, alifuglarækt eða mjólkurbúskap. Gylturnar í svínabúum sem fá frjósemislyfin úr blóði blóðmera eiga að framleiða sem flesta grísi en geta yfirleitt ekki sinnt þeim á viðeigandi hátt enda innilokaðar í þröngum búrum.

Ef við menn ætlum að lifa í sátt og samlyndi við náttúru og skepnur sem þar lifa þá eigum við að hugsa okkar gang. Jörðin okkar er stórkostleg og allt sem á henni er hefur sinn tilgang í þessari stóru hljómsveit sem lífið er. Spillum því ekki með því að hugsa einungis um hagnað.