Í janúar síðastliðnum var fæðingarorlof lengt um einn mánuð, úr níu mánuðum í tíu, og stendur til að lengja það í 12 mánuði árið 2021. Eftir nýjustu breytingar fær hvort foreldri um sig fjóra mánuði, auk þess eru tveir mánuðir til viðbótar sem foreldrar geta ráðstafað að vild.

Ofangreindri lengingu á fæðingarorlofi ber að fagna, ekki síst því að ungbörn njóta umönnunar foreldra sinna lengur og að foreldar hafi jafnan rétt.

Öðru máli gegnir um einstæðar mæður. Þær áttu rétt á sex mánaða fæðingarorlofi fyrir lagabreytingu og eiga eftir breytinguna sama sex mánaða réttinn, þó með fáeinum undantekningum.

Á meðan réttur tveggja foreldra eykst þá stendur réttur einstæðra mæðra í stað. Þarna þarf að endurskoða reglugerð og tryggja að öll ungbörn fái sama tækifæri til að njóta samveru við foreldra sína, hvort sem það er eitt foreldri eða tvö sem eiga í hlut. Ef við horfum til Norðurlandanna þá eiga einstæðar mæður í Danmörku, Noregi og Svíðþjóð rétt á jafnlöngu fæðingarorlofi og tveir foreldrar. Ríkisstjórn Finnlands lagði síðan nýlega fram frumvarp sem bæði lengir orlof og eykur rétt feðra og einstæðra mæðra.

Í fáeinum tilfellum er faðirinn alls ekki inn í myndinni. Einnig getur verið að það sé mjög stirt og stopult samband á milli verðandi foreldra. Þegar kringumstæður eru þannig þá er ólíklegt að faðir sæki um fæðingarorlof og að móðir samþykki það.

Í ljósi ofangreindra skrifa er mikilvægt að tryggja velferð barna og að börnum sé ekki mismunað.

Fyrsta árið í lífi sérhvers barns er mikilvægasta mótunarskeið bernskunnar. Því eru náin, samfelld og ótrufluð tengsl afar brýn og hafa áhrif á þroska og tengslamyndun. Í sumum tilfellum getur það líka verið kvíðvænlegt fyrir móður að eiga einungis kost á sex mánaða fæðingarorlofi. Það skapar óöryggi fyrir hana að vita ekki hvað tekur við að orlofi loknu, þar sem hvorki móðir né barn er tilbúið fyrir aðskilnað og dagvistunarúrræði eru ekki fyrir hendi.

Brýnt er að skoða þetta nánar með velferð barna í huga.