Árið 1472 mótmælti fjölmenn stétt ítalskra skrifara prentvél Gutenbergs harðlega. Breskir sokkagerðarmenn mótmæltu sokkaprjónavél sem kom fram árið 1589. Franskt verkafólk í ullarvinnslu eyðilagði ullarvinnsluvélar í París árið 1789.

Okkur finnst þetta kannski kjánalegt í dag enda eru tækniframfarir fyrstu iðnbyltingarinnar, og þeirra sem á eftir komu, grunnur lífsgæðanna sem við búum við. Færri hendur þurfti til að vinna verkin, framleiðni jókst, vörur urðu ódýrari og fólk sem áður vann störf sem nú voru vélvædd varð atvinnulaust. Ný rannsókn sýnir að einn vélvæddur vinnuþjarkur kemur í staðinn fyrir ríflega þrjú störf í bandarískum verksmiðjum. Andstaða við vél- og sjálfvirknivæðingu í iðnaði var kannski að einhverju leyti skiljanleg. Það vill enginn verða atvinnulaus.

Finna má fjölda dæma þar sem staðið var í vegi fyrir framförum sem byggðu á vélvæðingu, í því skyni að standa vörð um störf. Bretar voru þó fyrstir til að snúa dæminu við og undir lok 18. aldar lá dauðarefsing við því að eyðileggja vélbúnað í Bretlandi, sem skýrir kannski hvers vegna það varð fyrsta landið til að iðnvæðast.

Hringrás framfaranna er enn jafn mótsagnakennd. Fyrir þau sem vinna einhæfðari framleiðslustörf, sem hægt er að vél- og sjálfvirknivæða, valda tækniframfarir oft atvinnuleysi. Þegar til lengri tíma er litið eru tækniframfarir grundvöllur lífsgæða mannkyns. Þau lönd sem nýta sér ekki vél- og sjálfvirknivæðingu dragast einfaldlega aftur úr.

Framsýnt þjóðfélag býður fólki að mennta sig til nýrra starfa í sjálfvirknivæddu umhverfi – áður en það missir vinnuna. Annars er hætta á að sagan endurtaki sig.