Eðlilega leynist ýmislegt annað en Covid-sýnishorn í nösum fólks þegar þangað er kafað með sýnatökupinnum og sá kvittur kominn á kreik að stundum „snjói“ dálítið þegar hvítar duft­agnir falla til jarðar þegar borað er eftir sýnum.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst falla örvandi efni þó ekki í slíku magni að sérstaka athygli veki.

Helsti viðbjóðurinn sem sýnatökufólk finnur sé hins vegar tóbaksmengaður hor þótt óneitanlega væri meiri fengur í hinu ef úrkoman væri slík að hægt væri að drýgja ríkissjóð með endurvinnslu notaðra fíkniefna.

Lítill dagamunur

Útlit er fyrir að Samfylkingin stefni á heldur staðlaðan framboðslista kunnuglegra andlita fyrir borgarstjórnarkosningarnar þar sem Heiða Björg Hilmisdóttir er líkleg til að fylgja Degi B. Eggertssyni eftir í öðru sætinu og Skúli Helgason og Hjálmar Sveinsson vilja það þriðja.

Rétt eins og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, sem lætur ekki aftra sér að fæti hafi verið brugðið fyrir hann í svipuðum erindagjörðum fyrir alþingiskosningarnar og takmarkaður áhugi virðist á nýju blóði fyrir utan það að honum hafi þegar verið tjáð að sætið sé frátekið.