Það er ekki allt sem sýnist þegar tekjublöðin birta tekjur fólks og spegla um leið skattbyrðar þessa sama fólks.

Það er fróðlegt að bera saman annars vegar tekjublöð Frjálsar verslunar og DV og hins vegar tekjublað Stundarinnar og skýrslu Stefáns Ólafssonar um kjör almennings, öryrkja og þá einkum þeirra launamanna sem komnir eru á eftirlaun.

Tekjublöð Frjálsar verslunar og DV segja hálfsannleik sem er í rauninni verri en lygi, því hann blindar sýn á raunveruleikann.

Stundin flettir ofan af elítunni sem tekst að nota glufur í skattakerfinu til að komast undan því að greiða til samfélagsins, eins og almennir launamenn þurfa hikstalaust að gera. Fjármagnstekjur og arður bera lága skattaprósentu og af þeim greiðir fólk ekki útsvar. Útsvar rennur til sveitarfélaga til að bera ýmislegan kostnað þess sem við borgararnir njótum í daglegu lífi okkar í þeim sveitarfélögum sem við búum og störfum í. Félags- og velferðarþjónustu, menningarlíf, götur, leik- og grunnskóla, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta fólk tekur ekki á sig kostnað vegna þessa, en nýtir þó í ómældum mæli á hverjum degi.

Ríkisstjórnin ofurskattleggur lágtekjufólk

Ríkisstjórnir sem hafa setið frá 2013, síðustu átta ár, sem allar hafa innihaldið Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn, hafa blygðunarlaust fært kostnað samneyslu okkar og velferðar á veikustu bök samfélagsins: almenna launamenn, öryrkja og eldri borgara. Þessir flokkar hafa aðhyllst nýfrjálshyggju sem leggur áherslu á að lækka skatta á hátekjur og fjármagnstekjur.

Það skiptir miklu máli þegar við tölum um kjör þeirra sem standa lakar og mega við lítilli efnahagslegri ágjöf, fjölskyldur á almennum vinnumarkaði, öryrkja og eftirlaunafólk. Það sýnir Stefán Ólafsson prófessor glöggt í skýrslu sinni, sem hann skrifaði fyrir Eflingu og nefnist Kjör lífeyrisþega.

Þar kemur skýrt fram að: „Skattbyrði þeirra efnameiri var lækkuð og færð yfir á lægst launuðu hópana, þar á meðal lífeyrisþega, og einnig að hluta yfir á millitekjufólk. Þetta er „stóra skattatilfærslan“ sem nýfrjálshyggjan færði okkur. Þessi þróun hefur staðið meira og minna frá 1995 til 2019. Helsta frávikið er stjórnartími vinstri stjórnarinnar er sat frá 2009 til 2013. Þá var skattbyrði hátekjufólks aukin á ný, en síðari ríkisstjórnir hafa undið ofan af þeim breytingum á ný.“

Stefán vekur athygli á þeirri ótrúlegu skattbyrði sem hefur orðið hjá eftirlaunafólki. Hann segir í grein í Kjarnanum á dögunum að „hún hafi farið úr 11,9% af heildartekjum árið 1995 í 23,3% árið 2018. Skattbyrðin sem sagt tvöfaldaðist. Hjá örorkulífeyrisþegum (sem hafa lægri tekjur en eldri borgarar) fór skattbyrðin úr um 9,5% í um 21,3%. Þar var aukningin meira en tvöföldun.

Þetta er mjög mikil aukning skattbyrðar – á alla mælikvarða.

Til samanburðar má sjá hvernig skattbyrði hátekjufólks á Íslandi (það er tekjuhæsta eina prósentsins) þróaðist á svipuðum tíma, eða úr 35% í um 26%. Þar lækkaði skattbyrðin um tæplega 10 prósentustig. Þetta var veruleg kjarabót fyrir hátekjufólkið.

Setjum hlutina í rétt samhengi

Ríkið hefur þannig lagt marga steina í götu þess að lífeyrisþegar hefðu eðlilegar kjarabætur af því að hafa safnað í lífeyrissjóði á starfsferlinum – bæði í formi skerðinga og aukinnar skattbyrði.

Það er nauðsynlegt að skoða skattamál í allri umræðu um lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, grunnlífeyri og tekjutengingar. Því allt spilar þetta saman.

Hægt er að bæta kjör þeirra sem minna bera úr býtum með réttlátari skattlagningu.

Eftirlaunafólk og öryrkjar hafa ekki breiðustu bökin og eru að kikna undan byrðunum sem á það er lagðar.

Við þurfum að fara í rækilega uppstokkun á skattalöggjöfinni og löggjöf um almannatryggingar. Hvoru tveggja til réttlátara samfélags.

Kjör eftirlaunafólks og öryrkja eru ekki það sem er að sliga þjóðfélagið, heldur þeir sem lifa í vellystingum praktuglega og bera litlar byrðar, en njóta þó í einu og öllu alls þess sem við hin leggjum til samfélagsins af kröppum kjörum, svo hér megi ríkja gott samfélag.

Við þurfum mannúðlegri ríkisstjórn. Við þurfum nýja ríkisstjórn.