Í kjölfar færslu á Facebook vegg Einars Sveinbjörnssonar vilja aðstandendur átaksins Hættum að urða árétta nokkur atriði.

Í færslunni er sett spurningamerki við það hvort umhverfisvænt sé að flytja rusl til að láta brenna í orkuvinnslum í Evrópu. Svarið við því er já, hvernig sem á málið er litið. Umhverfisávinningurinn af brunanum ytra er margfaldur á við fótsporið sem af flutningnum hlýst. Svo nýtist líka ferð skipanna út að sækja vörur til innflutnings. Urðun er alltaf versti kostur og hægt að hætta henni strax.

Þá hefur verið haldið á lofti hugmyndum um að betra væri að brenna sorp hér heima en að flytja það í orkuvinnslur í Evrópu. Hingað til hefur ekki fundist hagkvæm leið til brennslu hér heima, en verði sá kostur raunhæfur verða aðstandendur átaksins fyrstir til að fagna því, enda mikilvægt að endurvinnsla fari fram hér heima í eins miklum mæli og kostur er.

Og jafnvel þótt ekki sé litið til þess að verið sé að nýta undir flutninginn pláss í flutningaskipum sem annars væri autt, þá hefur Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur bent á að svo fremi sem rusl sé brennt til orkuvinnslu þá borgi sig frá sjónarhóli umhverfisins að flytja það úr landi til slíkra nota. Kosturinn kann að hljóma illa, en hann er miklu betri en að taka land og skemma til áratuga með því að urða þar rusl. Hann hefur bent á að samkvæmt lauslegum útreikningi þurfi sjö lítra af olíu til að flytja tonn af rusli til Evrópu með skipi. Við bruna ruslsins þar sparist hins vegar 390 lítrar sem annars þyrfti af olíu til að búa til samsvarandi orku.

Urðun á rusli verður sjálfhætt þegar urðunarstaðirnir fyllast. Árlega eru urðuð nærri 220 þúsund tonn af rusli. Urðun er alltaf versti kosturinn. Umhverfisvænar lausnir eru oft dýrari til skemmri tíma, en börnum okkar og barnabörnum bíður reikningurinn ef ekki er látið af umhverfissóðaskapnum. Og með hækkandi urðunargjöldum er útflutningur á óendurvinnanlegum úrgangi til orkuvinnslu raunhæfur kostur. Hann er í dag hagkvæmasti kosturinn fyrir mörg sveitarfélög, bæði umhverfislega og fjárhagslega.

Íslenska gámafélagið flytur úrgang á milli staða og kemur honum til endurvinnslu eða förgunar. Stefna fyrirtækisins er að finna sem umhverfisvænastar leiðir fyrir mismunandi hráefni. Þannig er stuðlað að hringrás hráefna og sóun lágmörkuð. Fyrirtækið vill styðja allar raunhæfar leiðir til aukinnar nýtingar á hráefninu sem felst í rusli. Urðun úrgangs er alltaf slæmur kostur, nema um sé að ræða óvirkan úrgang eins og steinefni.

Höfundur er forstjóri Íslenska gámafélagsins.