Á þessum degi, 5. október árið 1938, ógiltu þýsk yfirvöld öll vegabréf þýskra gyðinga. Á þessum tímapunkti hafði „lokalausninni“ ekki verið hrint í framkvæmd, enda rúm þrjú ár í Wannsee-fundinn, þar sem morðingjaófétin lögðu á þau hrikalegu ráð. Gyðingar urðu að skila inn vegabréfum sínum og fengu í þeirra stað pappíra rækilega stimplaða með stóru rauðu „J“ (Jude), auk þess sem allar konur fengu millinafnið Sarah og karlar Israel. Þetta einangraði gyðinga enn frekar og auðveldaði ofsóknir nasista á hendur þeim og var þá þegar langt til jafnað.

Hrikalegar aðfarir nasista höfðu þegar rekið fjölda fólks á flótta og fjölmargir sóttu um hæli í nágrannalöndum Þýskalands. Mörgum var vel tekið, sér í lagi í fyrstu, en smám saman byrjaði gestrisnin að súrna. Þarna, löngu fyrir hina eiginlegu helför, gáfust nágrannarnir í Sviss upp og það var að þeirra frumkvæði, ekki nasistanna, að vegabréfin voru afturkölluð. Tæpast hefur nokkrum í svissnesku ríkisstjórninni dottið í hug hvað fram undan var, en, „the rest is history“.

Þessi fortíð rifjast upp fyrir mér þegar ég gleðst yfir öflugu viðbragði okkar vegna flóttamanna frá Úkraínu. Um þau ríkir samstaða og ákveðni. Ennþá. En við höfum lengi tekið við (of fáum) flóttamönnum lengra að og heldur er umræðan orðið súrari og fátæklegri um móttöku fólks frá til dæmis Afganistan. Á þetta benti meðal annars íslenskur aðstoðarrektor í Kabúl, sem bar saman fjölda og hraða móttöku þeirra sem við bjóðum til okkar frá Afganistan og þeirra sem koma nú frá Úkraínu.

Útlit vegabréfsins skiptir ennþá máli.