Á meðan við sköfum bílinn, undirlögð veðurkvíða og búum okkur undir næstu lægð er fátt betra en að skipuleggja sumarfríið.
Skipulagið krefst hugrekkis og skynsemi. Hvað ef við kaupum flugmiða í sólina og missum af þessum tveimur vikum þar sem veðrið er geggjað á Íslandi? Hvað ef við kaupum ekki flugmiða og eyðum sumarfríinu eltandi veðrið, tjaldandi í grenjandi rigningu, grillandi í hífandi roki, vaknandi í blautum svefnpoka? Hvað ef við förum öll til Tene, birtum myndir af tásum á Facebook og veltum þjóðarskútunni í ölduróti alþjóðlegra fjármálamarkaða?
Forfeður okkar þekktu að óvissa kallar á virka áhættustýringu. Fyrir daga verðurskips Líma (í alvöru, veit einhver hvað það var?) treysti fólk á forspárgildi veðurglöggra hagamúsa, stökkvandi sela, morgunbaulandi kúa og útburðarvæl í húsum sem, eðlilega, boðaði veðrabreytingar. Amma mín virkjaði mótvægisaðgerðir, hrífutindum var aldrei snúið upp. Þannig kom hún í veg fyrir að það rigndi í heyið.
Nagandi óvissa náttúruaflanna setur byrðar á herðar Veðurstofu Íslands. Starfsfólk hlýtur að þjást af frammistöðukvíða. Minnug sumarsins þegar góða veðrinu var ítrekað spáð en það bara rigndi og rigndi. Litlu mátti muna að efnt yrði til mótmæla í garði stofnunarinnar.
Nútímatækni auðveldar áhættustýringu sumarfría og traust þjóðarinnar til greiningardeildar Veðurstofunnar hefur verið endurvakið. Þó vissulega séu vonir bundnar við að sumar og vetur frjósi saman, enda blikur á lofti.
Gleðilegt sumar – og Guð blessi Ísland.