Nýlega hafa samningar Vatnajökulsþjóðgarðs við ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á íshellaferðir og jöklagöngur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Um er að ræða þróunarverkefni sem tengist innleiðingu á atvinnustefnu þjóðgarðsins.

Vatnajökulsþjóðgarður er tólf ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þar sem starfa um 35 manns á heilsárgrundvelli, langflestir á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Að sumarlagi bætast við um 70 starfsmenn sem sinna landvörslu, fræðslu og öðrum tilfallandi verkefnum. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Sumarið 2019 var stigið mikilvægt skref í þróun þjóðgarðsins þegar hann var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO sem staðfestir að hann er einstakur á heimsvísu.

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni hans, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðanna. Til að stunda atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði þarf samning eða leyfi á forsendum sem finna má í lögum og reglugerð um þjóðgarðinn, stjórnunar- og verndaráætlun hans og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum t.d. um náttúruvernd, öryggi, starfsleyfi, ferðamál og vinnumarkaðsmál.

Til þess að skýra leikreglur vegna atvinnutengdrar starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði samþykkti stjórn hans sérstaka atvinnustefnu í júní 2019. Stefnan útfærir leiðarljós um náttúruvernd og sjálfbærni, samvinnu, virðingu og gæði. Auk þess setti umhverfis- og auðlindaráðuneytið reglugerð um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði í mars 2020. Í reglugerðinni er atvinnutengd starfsemi skilgreind sem „þjónusta sem aðrir en þjóðgarðurinn bjóða gegn þóknun innan marka þjóðgarðsins“. Hefðbundin landnýting og starfsemi henni tengd telst ekki atvinnutengdrar starfsemi s.s. búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði, veiði í ám og vötnum og nýting rekaviðar. Í reglugerðinni er atvinnutengdri starfsemi skipt í tvennt með eftirfarandi hætti:

Í flestum tilfellum geta gestir og ferðaþjónustufyrirtæki heimsótt Vatnajökulsþjóðgarðs án takmarkana. Í nokkrum tilvikum er þó mikilvægt að skilgreina fjölda gesta eða fjölda fyrirtækja á hverjum tíma. Dæmi um þetta er t.d. heimsóknir í íshella í skriðjöklum þar sem takmarkað pláss er fyrir gesti og þar sem gæta þarf sérstaklega að öryggi þeirra í hættulegum aðstæðum.

Eftir samtal og samráð starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs við fulltrúa fyrirtækja sem stunda íshellaferðir og jöklagöngur með ferðamenn á suðursvæði var ákveðið á fyrri hluta árs 2020 að hefja þróunarverkefni við gerð samninga um þessar ferðir. Það var mat Vatnajökulsþjóðgarðs að nauðsynlegt væri að takmarka fjölda gesta í íshellaferðir á þessu svæði. Auglýst var eftir umsóknum á Breiðamerkurjökli, Falljökli/Virkisjökli, Skeiðarárjökli og Skálafellsjökli. Í auglýsingunni var tilgreindur hámarksfjöldi gesta á hverju svæði sem samningar yrðu gerðir um. Alls bárust umsóknir frá tuttugu og sjö fyrirtækjum á þeim fimm svæðum sem auglýst voru.

Öll fyrirtækin töldust uppfylla skilyrði og fengu þau jákvætt svar um gerð samnings við þjóðgarðinn. Umsóknir um fjölda gesta á þremur svæðum voru samanlagt umfram þann hámarksfjölda sem tilgreindur var í auglýsingu. Því var ljóst að fyrirtæki gætu ekki fengið úthlutað þeim fjölda gesta sem sótt var um. Ákveðið var að fara þá leið að beita hlutfallslegri skerðingu á fjölda gesta miðað við þann fjölda sem sótt var um. Við framkvæmd úthlutunar var byggt á sjónarmiðum sem fram koma í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, reglugerð þjóðgarðsins og atvinnustefnu hans. Hlutfallsleg skerðing var meiri eftir því sem sótt var um heimild fyrir fleiri gestum.

Framagreint verkefni við að takmarka fjölda ferðamanna í Vatnajökulsþjóðgarði er þróunarverkefni og hefur þegar orðið til mikilvæg reynsla og þekking sem ekki var fyrir hendi áður en verkefnið hófst. Á þessari reynslu og samtali við ferðaþjónustufyrirtækin verður haldið áfram að þróa aðferðir þar sem meginmarkmiðið er sjálfbær uppbygging atvinnustarfsemi í þjóðgarðsins í sátt við samfélagið og náttúruna. Lykillinn að því að það gangi vel er samvinna og þekking og að nálgast verkefnið í hæfilega stórum skrefum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.