Á leið í gos í liðinni viku sat ég í bíl með fjölskyldunni. Við ræddum tækni fortíðar. Strax komu upp minningar um eitt það heitasta frá níunda áratugnum sem var vasadiskóið, rafhlöðuknúið kassettutæki með heyrnartólum. Og þá fór ég að hugleiða uppruna þessa orðs, sem var jafnalgengt og orðið rigning í íslensku máli fyrir 30-40 árum en heyrist ekki lengur. Vasadiskó, hin íslenska útgáfan á enska orðinu Walkman. Vasa-skírskotunina þarf ekki að ræða, en hvað átti þetta diskó að þýða? Diskó sem á þessum tíma var einhvers konar samheitaorð yfir slappa tónlistarstefnu og dansleiki á áttunda áratugnum. Var þetta kassettutæki einhvers konar dansleikur í vasa eða prívat diskótek í heyrnartólum? Og af hverju kenna sig við diskó? Vasarokk er miklu kraftmeira og skemmtilegra.

Annað orð frá þessum tíma er eyðni, sem var íslensk þýðing á sjúkdómsheitinu AIDS. Hvílík jákvæðni og manngæska að smíða svona lýsandi íslenskt orð yfir þennan banvæna sjúkdóm. Innblásið frá hinum fögru orðum, auðn og eyðing. Það var sannarlega jákvætt veganesti frá íslenskum orðasmiðum og falleg framtíðarsýn til þeirra sem sýktust. Vafalítið átti orðið að hafa forvarnargildi og valda ótta og skelfingu hjá öllum. Bæði þessi orð, vasadiskó og eyðni eru horfin úr íslenskri tungu.

Í dag er svo skírdagur. Samkvæmt vísindavef HÍ vísar heiti dagsins til þess að þennan dag þvoði Jesú fætur lærisveina sinna og veitti þeim aflausn. Eitt heiti skírdags á latínu er „dies pedilavii“ sem merkir fótþvottadagur. Að því sögðu þá óska ég þér gleðilegra páska með hreina fætur og megi veiran sem eyðilagði páskana fá íslenska eyðni.