Þegar ég var átta ára stal ég bíl. Mér til varnar bjó ekki einbeittur brotavilji að baki glæpnum. Að mínu mati var, á því augnabliki, góð hugmynd að þiggja bíl sem nágranni okkar systkina ákvað að gefa okkur. Nágranninn var mikill grínisti, jafnvel hrekkjalómur. Á þessum tíma var hvorki búið að finna upp mikilvægi gagnrýnnar hugsunar fyrir börn – né vara þau við gylliboðum ofurhressra nágranna.

Hvað um það. Ég þáði gjöfina og sótti systkini mín. Enda þurfti ég hjálp við að sækja kerruna: appelsínugula Volkswagen-bjöllu. Gjöfin stóð stolt fyrir utan hús annars nágranna, eldri konu ofar í götunni. Engar viðvörunarbjöllur sem hringdu þar.

Bróðir minn var sjálfskipaður bílstjóri, enda tíu ára og hafði fyrr um sumarið keyrt traktor í sveitinni. Hinn örláti nágranni gleymdi að láta okkur fá lykilinn en við vorum lausnamiðuð. Traktorskeyrandi stóri bróðir kunni á handbremsu og beinskiptan og hafði að auki séð hvernig koma ætti farartæki af stað með því að láta það renna niður brekku. Við systur, klæddar í tríkot, ýttum.

Aumingja konan fann bílinn í garðinum heima og réttlætið sigraði að lokum. Við vorum skömmuð, en það var nú hvorki í fyrsta né síðasta skipti. Ótínt sönnunargagn er að finna á skilti fyrir framan Hólagötu 19 í Vestmannaeyjum og á því stendur: Varúð – Börn. Og upphrópunarmerki á eftir. Okkur til ævarandi háðungar.

Lærdómurinn? Það getur verið hentugt að koma bíl í gang með því að láta hann renna niður brekku. Það er hægt að ýta bíl inn í garð ef maður er í tríkoti.

Góðar stundir.