Neikvæð umfjöllun á samfélagsmiðlum og í fréttamiðli undanfarið um starfsemi og starfsmenn Stuðla sýnir hversu varnarlaus við erum gagnvart sumum þáttum starfs okkar. Starfsmenn Stuðla eru bundnir trúnaði og geta ekki varist ásökununum.

Augljósar rangfærslur og ósannindi fá að lifa og starfsmenn eiga bara að sitja undir þessu og bíða eftir því að moldviðrið líði hjá. Það veldur mikilli vanlíðan starfsfólks og makar og börn líða fyrir þetta. Það er verið að hafa æruna af góðu fólki og við hljótum að gera kröfu um að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn. Orð hafa ábyrgð og starfsfólk hlýtur að skoða rétt sinn.

Stuðlar eru meðferðarheimili ríkisins fyrir unglinga. Þar eru fjórar deildir, meðferðardeild, neyðarvistun, vistheimilið Lækjarbakki og eftirmeðferð. Barnaverndarnefndir geta vistað unglinga lengst í fjórtán daga á neyðarvistun en alltaf er reynt að hafa vistanir eins stuttar og hægt er. Neyðarvistun sér einnig um gæsluvarðhald ungmenna yngri en átján ára og þær vistanir eru líka á vegum barnaverndarnefnda. Neyðarvistun er eina deildin á landinu sem sér um þvingaða afeitrun ungmenna undir átján ára aldri og við það verkefni er notast við aðstoð lækna og hjúkrunarfólks af sjúkrahúsinu Vogi. Neyðarvistun tekur við öllum undir átján ára aldri sem aðrar stofnanir vísa frá sér og treysta sér ekki til þess að hýsa. Algengar vistunarástæður eru vímuefnaneysla, útigangur og afbrot. Einnig stjórnleysi og alvarleg ofbeldisafbrot tengd neyslu og hegðunarröskunum, ásamt þroskaskerðingum. Þá má nefna vistanir tengdar hættu á sjálfsskaða og sjálfsvígstilraunum. Mörg ungmennin sem eru vistuð aftur og aftur á neyðarvistun ættu að vera vistuð annars staðar en fá ekki þjónustu við hæfi.

Starfsemin er undir miklu eftirliti og krafan um það kom frá Stuðlum. Upp úr síðustu aldamótum ræddi þáverandi forstöðumaður og undirritaður ítrekað við Barnaverndarstofu um þörfina á auknu og virkara eftirliti með starfseminni. Þá var byrjað að byggja upp öflugt og stöðugt samtímaeftirlit.

Nær daglega koma foreldrar eða aðrir aðstandendur í heimsókn og skjólstæðingar mega alltaf hringja í foreldra og barnaverndarnefnd. Starfsmenn barnaverndarnefnda koma nær daglega á neyðarvistun. Félagsmálaráðuneytið er með eftirlit sem kemur á Stuðla og ræðir við ungmennin og starfsfólk. Umboðsmaður Alþingis gerði Opcat-skýrslu, sem fjallar um eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, um neyðarvistun Stuðla 2020 og ræddi við ótal ungmenni og flesta starfsmenn. Í þessum skýrslum hafa komið fram athugasemdir varðandi lagarammann um neyðarvistun, en það mál snýr að stjórnsýslunni. Einnig hafa verið gerðar athugasemdir sem snúa að húsnæði neyðarvistunar og að ungmennin séu ekki nægilega upplýst um rétt sinn með formlegum hætti. Starfsmenn hafa komið vel út úr þeim þætti sem snýr að framkomu og umgengni við ungmennin. Börnin og foreldrar þeirra tala nær alltaf vel um starfsmennina og oftar en ekki myndast vinátta milli starfsmanna og þeirra sem koma oft á neyðarvistun.

Þar sem unnið er með ungmenni í vanda og í mikilli neyð má búast við árekstrum og miklum tilfinningum. Það liggur í hlutarins eðli að skjólstæðingarnir eru ekki alltaf sáttir því ungmennin eru oftast vistuð gegn vilja sínum. Kvartanir og klögumál eru því eðlilegur hluti starfsins. Það er hluti af starfinu í neyðarvistun að takast á við það. En starfsfólki Stuðla finnst erfitt að lifa við hvað það er greið leið til að ásaka það um ofbeldi og lítilsvirðandi hegðun í garð skjólstæðinganna án þess að því sé svarað og mótmælt.

Ég þekki enga sem bera hag þessara ungmenna jafn mikið fyrir brjósti og starfsfólkið sem þarf að takast á við erfiðar aðstæður á hverjum degi og leysa úr þeim. Það er bæði öfugsnúið og umhugsunarvert að þegar fjallað er um þennan málaflokk mætti ætla að helsta ógnin við unglinga í vanda væri starfsfólkið sem sinnir þeim.

Það starfsfólk sem sinnir ungmennunum vinnur erfiðustu störfin. Það er fólkið sem þarf stundum að stíga inn í hættulegar og snúnar aðstæður í starfi sínu og fær á sig mestu gagnrýnina. Það þykir sjálfsagt að saka þau um hvaðeina og störfum þeirra er ekki sýnd sú virðing sem þeim ber. Starfsmennirnir eru settir í þá stöðu að þurfa að bera af sér sakir í tíma og ótíma og starfa undir grun um að vera ofbeldisfólk þar til annað sannast. Þegar stoppa þarf ofbeldi eða aðra hættulega hegðun, með því að stíga inn og beita valdi, þá er oft reynt að tengja atburðinn við persónu starfsmannsins og persónuleika og segja að atvikið sé ekki vinnutengt. Slíkt er ekki ásættanlegt vinnuumhverfi. Það er löngu tímabært að létta illum grun af þessum störfum.

Nú er svo komið að Barnaverndarstofa og Félags- og barnamálaráðuneytið þurfa að grípa til varna og styðja fólkið sem vinnur erfiðustu og hættulegustu störfin. Það er ekki hægt að líða það að fólk sér rænt ærunni án þess að nokkuð sé aðhafst. Starfsfólkið þarf líka að leita til stéttarfélaga sinna, eftir aðstoð við að finna leiðir til þess að fást við þennan nýja veruleika, þar sem viðbjóðslegum ásökunum er kastað fram og blaðamenn, sem telja sig fagmenn, hlaða í bálköst.

Höfundur er deildarstjóri neyðarvistunar Stuðla.