Það veldur vonbrigðum hve lítinn áhuga yfirvöld hafa á að veita fjölmiðlafólki vernd gegn árásum í starfi. Engin formleg eftirmál hafa orðið af hálfu lögreglu eða ákæruvalds vegna þeirrar aðfarar sem farin var að Helga Seljan þáverandi fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu.

Það mál er í það minnsta algerlega óuppgert gagnvart almenningi í landinu sem hlýtur þó að eiga rétt á að vita hvaða augum það er litið af refsivörslukerfinu.

Í síðustu viku bárust fréttir af innbroti og skemmdarverkum á ritstjórnarskrifstofum fjölmiðils og bíl ritstjórans. Ekki var annað að skilja á ritstjóranum en að hann teldi lögreglu heldur áhugalausa um málið.

Það þarf vonandi ekki að útskýra hvers vegna almannahagsmunir krefjast þess að mál af þessum toga séu rannsökuð og upplýst, hvað sem að baki kann að búa og hvort sem gerendurnir eru óvitar eða valdafólk.

Það er mál margra í stétt fréttafólks að þeim stafi síst ógn af undirheimafólki og þekktum ofbeldismönnum, sem þó fá oft óvægna umfjöllun. Það er alls ekki síður fólk í háum stöðum og hjá valdamestu fyrirtækjum landsins sem hótar blaðamönnum og gefur þeim ástæðu til að óttast um öryggi sitt.

Lögreglan bregst iðulega hratt við ef fyrrnefndi hópurinn veitist að fjölmiðlum. Þannig fékk Jón Trausti Lúthersson fangelsisdóm fyrir að ráðast með ofbeldi á Reyni Traustason á ritstjórnarskrifstofum DV árið 2005.

Ekkert fréttist hins vegar af aðgerðum gegn auðmönnum og valdafólki sem reynir með glæpsamlegum aðferðum að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla.

Þessi forgangsröðun lögreglunnar bitnar reyndar ekki eingöngu á fjölmiðlafólki heldur hefur stjórnmálafólk líka mátt þola að vegið sé að öryggi þess, jafnvel með afar fólskulegum hætti. Enginn hefur verið ákærður fyrir að skjóta á bíl borgarstjóra í fyrra.

Málið var látið niður falla án ákæru vegna þess að ákæruvaldið taldi sig ekki hafa nægar sannanir til að ákæra þann sem grunaður var um verknaðinn. Byssumaðurinn gengur því laus og borgarstjóri hlýtur oft að leiða hugann að því.

Líklega eru fæstir þeirrar skoðunar að blaðamenn og stjórnmálafólk sé merkilegra en annað fólk, en árásir sem hafa þann tilgang að þagga niður í fjölmiðlum eða hræða stjórnmálafólk til hlýðni eru hryðjuverk.

Ef engin ábyrgð fylgir þessum árásum á lýðræðið og grunnstoðir þess eru yfirvöld að leggja blessun sína yfir hryðjuverk og senda þau skilaboð að ofbeldisfólk geti ráðist á lykilstarfsfólk lýðræðiskerfisins refsilaust.