Í friðsömustu löndum Evrópu – og þau eru blessunarlega fleiri en færri, á almenningur erfitt með að setja sig í spor Úkraínumanna sem berjast ýmist fyrir lífi sínu eða óttast það á hverri stundu að flugskeyti Rússa hitti heimili þeirra fyrir.

Og hversdagslega kann þessi tilhæfulausi og ógeðslegi stríðsrekstur Rússa á hendur nágrönnum sínum að vera jafn fjarlægur og hann er óskiljanlegur. Það hjálpar heldur ekki upp á hluttekninguna að gera að stríðið hefur dregist á langinn – og ekki er nema innan við mánuður þar til það hefur staðið yfir í heilt ár.

En skelfingin er söm og áður. Líkin hrannast upp. Örkumlin blasa við á hverri fréttamyndinni af annarri. Engu er hlíft. Eyðileggingin eykst dag frá degi. Innviðirnir eru sundurtættir, enda er spellvirkjunum einkum og sér í lagi beint að skólum, söfnum, samgöngumannvirkjum og rafstöðvum, fyrir nú utan heilu íbúðahverfin í stórum borgum og smáum. Og heita má að einu gleðilegu tíðindin sem berast frá Úkraínu hverfist um óbilandi baráttuþrek heimamanna, jafnt hermanna, helstu ráðamanna og allrar alþýðunnar austur á sléttunum miklu.

Í allri þessari gleymsku betur settra íbúa álfunnar má ekki leiða sjónir frá því sem raunverulega er að gerast í álfunni. Úkraínumenn eru að verja Evrópu. Þeir eru varðmenn hennar. Þeir fórna sér fyrir íbúana vestan landamæranna, en þeir hinir síðarnefndu vita sem er að ekkert ógnar friði þeirra og lífsviðurværi meira en ef Rússum tekst að hertaka Úkraínu. Og það er af því að því næst myndu Pútíntátarnir anda ofan í hálsmál frjálsra íbúa álfunnar, sem margir hverjir hugsa með hryllingi til Sovéttímans þegar lamandi hönd hins illa og spillta var lögð af sínum ógnarþunga yfir frumkvæði og áræði einstaklinga – og það í heilan mannsaldur.

Sá tími má aldrei verða aftur.

Og það er ein þjóð sem er öðru fremur að berjast fyrir því að svo verði ekki.

Það er í þessu ljósi sem það verður að teljast helst til aumkunarvert að sjá aðrar Evrópuþjóðir heykjast á því að láta Úkraínumönnum vopn í hendur. Þar hafa Þjóðverjar dregið lappirnar hvað lengst, framleiðendur fullkomnustu skriðdreka álfunnar sem forystumenn í Kænugarði hafa ítrekað óskað eftir til að hjálpa hermönnum sínum á víðum völlum vígstöðvanna.

Vonum seinna er Olaf kanslara Scholz, þeim varfærna og hógláta ráðamanni í Berlín, að snúast hugur – og ætla má að byssukjöftum hlébarðanna verði nú snúið í rétta átt.

Evrópa er í húfi.