Það hefur grafið um sig djúpstætt – og vaxandi – vantraust í samskiptum atvinnulífsins og Samkeppniseftirlitsins (SKE). Þetta er mjög bagalegt, og um leið dýrkeypt fyrir allt samfélagið. Fyrirtæki, lítil sem smærri, gæta vitaskuld sinna hagsmuna sem frekast þau geta. Það er eðlilegt og hafa þarf það í huga þegar þau reyna að beita sér gegn sumum ráðstöfunum Samkeppniseftirlitsins. Það er á hinn bóginn alls ekki eðlilegt, og til marks um að það sé eitthvað meiriháttar mikið að, þegar stjórnendur veigra sér flestir hverjir við því að tjá sig opinberlega um störf og málefni sem varða SKE vegna ótta við að falla í ónáð hjá eftirlitinu og mögulegar refsiaðgerðir af þess hálfu. Svo er nú samt raunveruleikinn í íslensku viðskiptalífi í dag.

Það vakti athygli þegar stjórnarformaður Festar upplýsti hluthafa á aðalfundi í vikunni um þær margvíslegu athugasemdir sem félagið gerði við störf sérstaks kunnáttumanns sem var skipaður af Samkeppniseftirlitinu vegna samruna fyrirtækisins og N1 2018. Hlutverk kunnáttumannsins er að hafa eftirlit með þeim aðgerðum, meðal annars sölu á tilteknum eignum, sem kveðið er á um í sáttinni. Í máli stjórnarformannsins var nefnt að enginn ágreiningur væri um skilyrði sáttarinnar en illa hefur hins vegar gengið að selja verslun félagsins á Hellu – nú síðast vegna andstöðu SKE byggðri á mati kunnáttumannsins – og því ljóst að henni verður að óbreyttu lokað í maí en enginn af helstu keppinautum Festar hefur sýnt henni áhuga nema að greitt verði með sölunni. Eftirlitið hefur hótað Festi rannsókn vegna mögulegra brota á sáttinni og að það kunni að skipa óháðan aðila sem hafi fullt umboð til að selja verslunina fyrir hönd smásölufyrirtækisins.

Alvarlegra er skeytingarleysi Samkeppniseftirlitsins gagnvart málefnalegri gagnrýni á störf stofnunarinnar með því að vísa ábyrgðinni einungis alfarið á atvinnulífið.

Sú staða sem nú er í samskiptum Festar og SKE vekur upp ýmsar spurningar. Stjórnendur félagsins hafa mjög gagnrýnt kostnað kunnáttumannsins, sagt samstarfið ekki hafa gengið vel og skort hafi á þær leiðbeiningar sem vænta mætti. Viðbrögð SKE við þeim umkvörtunum hafa í stuttu máli verið á þá leið að störf kunnáttumannsins komi eftirlitinu nánast ekkert við. Kostnaður fyrirtækisins vegna starfa hans, sem er um 60 milljónir á ríflega tveimur árum, er líklega talsvert meiri en sem nemur mögulegu söluandvirði verslunarinnar á Hellu. Það kemur því vart á óvart að stjórnendur Festar telji kostnaðinn langt úr hófi fram – hann er margfalt hærri en kostnaður kunnáttumanns sem var skipaður yfir sambærilegum samruna Haga og Olís – og hafi farið fram á skipun nýs kunnáttumanns.

Enginn efast um mikilvægi hlutverks Samkeppniseftirlitsins. Tilraunir stofnunarinnar til að handstýra smásölumarkaðinum, eins og við höfum séð síðustu ár, hafa hins vegar ekki gefist vel og þá er andstaða hennar við viðleitni fyrirtækja sem starfa á örmarkaði til að eiga með sér afmarkað samstarf, meðal annars fjármála- eða fjarskiptafyrirtæki um sameiginlega innviði, í því skyni að lækka rekstrarkostnað neytendum til hagsbóta, á köflum óskiljanleg. Alvarlegra er samt skeytingarleysi Samkeppniseftirlitsins gagnvart málefnalegri gagnrýni á störf stofnunarinnar með því, eins og forstjóra hennar er gjarnt, að vísa ábyrgðinni einungis alfarið á atvinnulífið. Ólíklegt er að breyting verði hér á nema að stjórnmálin, meðal annars ráðherra málaflokksins, láti sig málið varða og kalli eftir skýringum á þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin. Meira af því sama er ekki í boði.