Það er ekki nóg með að atvinnulífið tortryggi og vantreysti Reykjavíkurborg, eins og fram kemur í drögum að atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar, heldur treystir borgin ekki fyrirtækjum fyrir mikilvægum verkefnum.

Það má sjá í hve litlum mæli borgin nýtir þjónustu einkarekinna leik- og grunnskóla. Og að borgin stefnir á að ráða 60 manns, eða ígildi fjölmenns upplýsingatæknifyrirtækis, til að byggja upp stafræna innviði sveitarfélagsins, í stað þess að bjóða út einstaka verkþætti.

Dæmin eru fleiri. Reykjavíkurborg rekur til dæmis stærstu sorphirðu landsins í stað þess að fá einkaaðila til að sinna henni.

Raunar er meirihlutanum í Reykjavíkurborg það illa við sjálfstæða grunnskóla að hann hefur kosið að svelta þá. Það er skilvirk leið til að gera þá hornreka í borginni. Einkareknu grunnskólarnir fá einungis 75 prósent af framlagi skóla í eigu borgarinnar.

Vitaskuld eiga allir barnaskólar að fá jafnt frá borginni. Fullt framlag eykur líkur á að skólarnir þurfi ekki að innheimta skólagjöld sem mun gera fleirum kleift að sækja nám hjá þeim. Mælikvarðinn á einkarekstur sem veitir opinbera þjónustu er ekki að hann afli sjálfstæðra tekna, eins og ætla mætti af fyrirkomulaginu, heldur að hluthafar hætti eigin fé í reksturinn.

Leita þarf leiða til að efla menntun á Íslandi og öflugir einkareknir skólar eru vel til þess fallnir að innleiða nýjungar í skólastarfið og veita nemendum góða þjónustu.

Menntun er lykillinn að því að ná árangri í útflutningi á tækni. Það er nauðsynlegt að ná miklum árangri á því sviði til að lífsgæði hér á landi verði til jafns við það sem best gerist í heiminum enda er vöxtur auðlindahagkerfisins háður takmörkunum.

Borgin hefur dregið lappirnar í upplýsingagjöf. Þórdís Sigurðardóttir, sem sækist eftir oddvitasæti Viðreisnar í Reykjavíkurborg, vekur athygli á því í viðtali við Markaðinn að foreldrar geti ekki aflað sér upplýsinga um gæði skóla í borginni.

Það er mikilvægt að fá þær fram. Foreldrar eiga ekki að treysta í blindni þegar þeir skrá börn sín í skóla. Slíkar upplýsingar eru líka leiðarvísir og hvatning fyrir skóla til að bæta sig.