Það er örugglega ekki vinsæll þankagangur nú um stundir en samt skal spurt hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullmikill?

Djöfulgangur stjórnarandstöðunnar er skiljanlegur þótt erfitt sé að hafa þolinmæði með honum. Stjórnarandstaðan þráir ekkert meir en að fella ríkisstjórnina og virðist tilbúin að grípa til hvaða ráða sem er til að það markmið náist. Um leið verða ýkjur, gífuryrði og útúrsnúningar sjálfsagður hluti af málflutningnum. Einmitt þetta gerir stjórnarandstöðuna ótrúverðuga í þessu ákveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum.

Vissulega blasir við að í Íslandsbankamálinu var sumu klúðrað. Það jafngildir hins vegar ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjölmargir haldi því fram. Það hentar stjórnarandstöðunni til dæmis afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni meðal almennings.

Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum sama stað eftir bankahrun. Það hvarflar jafnvel að manni að þetta fólk sakni tímans þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur og sé nú að reyna að endurskapa hann. Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn. Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið.

Flestir þeir pistlahöfundar sem harðorðastir eru vegna málsins eru yfirlýstir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og kalla ágæta ríkisstjórn, undir stjórn framúrskarandi forsætisráðherra, öllum illum nöfnum. Þar eru sem sagt á ferð „the usual suspects“.

Greinilegt er að fjölmargir sjá sér hag í því að viðhafa sem sterkust orð um söluna á Íslandsbanka. Þetta sama fólk segist hafa komið auga á aðalskúrkinn, fjármálaráðherrann Bjarna Benediktsson, sem það segir skilyrðislaust eiga að segja af sér. Það er þó ekki eins og Bjarni hafi staðið einn að sölunni og persónulega skipulagt ferlið frá grunni. Ansi langsótt er að ætla að hengja hann.

Spyrja má hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir að þetta fólk færi upp á háa c-ið hvernig sem hefði verið staðið að sölu Íslandsbanka. Það hefði ætíð þefað uppi tækifæri til að öskra uppáhaldsorð sín: Spilling! Vanhæf ríkisstjórn!

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fara ofan í saumana á sölu Íslandsbanka, en þeir sem fá það hlutverk verða að búa yfir yfirvegun en ekki lifa í stöðugri vanstillingu.