Ég hef á langri ævi kynnst fjölmörgum alþingismönnum úr öllum stéttum og flokkum, á mismunandi aldri og af báðum kynjum. Þeir hafa verið ólíkir um margt en eitt er þeim öllum sameiginlegt: Að vilja halda í þingsætið sitt hvað sem það kostar.

Raunir Egils Skallagrímssonar í Sonatorreki eru sem gamankvæði miðað við harmakvein þingmanns sem missir þingsæti sitt í kosningum. Stærstur hluti þingmanna gefur alltaf kost á sér til endurkjörs. Ég hélt að þingmenn væru svona þaulsetnir vegna þess að þingið væri skemmtilegur og lifandi vinnustaður þar sem fólk fengi að njóta sín landi og þjóð til heilla. Skoðanakönnun sem birt var á dögunum sýnir að svo er alls ekki.

Þingmenn kvarta undan einelti, kynbundnu of beldi, kulnun, fjölskylduofsóknum og almennu aðkasti. Bæði innan þings og utan þurfa þjóðkjörnir fulltrúar okkar að berjast fyrir velferð og tilveru sinni. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði þessi ósköp og fylltist þakklæti gagnvart þessu fórnfúsa fólki. Það er kraftaverk að okkur skuli takast í hverjum kosningum að fylla þingsalinn af gáfuðu og frambærilegu fólki miðað við þessi starfsskilyrði. Gamalt máltæki leitar á hugann: Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

Þjóðin verður að bregðast við. Hækka kaup þingmanna og bæta við aðstoðarmönnum til að dreifa álaginu. Þingmenn eiga að hafa ókeypis aðgang að áfallahjálp, sálfræðimeðferð, geðlyfjum, iðju- og sjúkraþjálfun, spámönnum, einkaþjálfurum og prestum. Mestu skiptir þó að þjóðin læri að meta þessar fórnfúsu hetjur og fórnarlömb við Austurvöll sem stunda vinnu sína af alúð og samviskusemi þrátt fyrir ofsóknir og einelti.