Síðastliðið haust hrundu ÖBÍ réttindasamtök af stað kröftugri fræðsluherferð um fatlað fólk, þar með talið langveikt fólk, meðal annars til að fræða almenning og stuðla að jákvæðari umræðu sem og að auka sýnileika fatlaðs fólks.

Tungumálið er öflugt og það fylgir tíðarandanum en í neti þess lenda gjarnan óæskileg orð sem oft lýsa skorti á þekkingu, skilningi og stundum bara því að geta sett sig í spor annarra.

Leikur að orðum var einn hluti herferðarinnar þar sem forskeytið gat gjörbreytt merkingu orða, Tökum dæmi: van-máttur, orðið vanmáttur eitt og sér hefur yfir sér neikvæðan blæ en orðið máttur eitt og sér magnaðan og jákvæðan blæ. Því fylgir þróttur og fjör.

Orðatvennan van-geta, lýsir eins og önnur sem hér hafa verið kynnt til sögunnar, hvernig orðræðan um fatlað fólk og langveika, í mörgum tilfellum öryrkja, getur verið og hefur verið. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir vangeta m.a. dugleysi, aumingjaskap, ræfildóm og vanhæfni. Er ekki tími til kominn að breyta þessu orðspori og skora fordómana á hólm?

Geta merkir hins vegar að vera fær um, að kunna eitthvað eða læra. Ætlið þið að segja mér að úr 45.000 manna hópi geti aðeins fáir skarað fram úr eða getað? Nei, fatlað og langveikt fólk hefur svo margt til málanna að leggja og ekki aðeins um það sem að þeim snýr. Þau eru hæfileikabúnt upp til hópa og því mikilvægt að samfélagið sé meðvitað um það svo að hæfileikarnir og getan fari ekki forgörðum. Við viljum að borðinu!

Stjórnvöld hafa undanfarin misseri lagt áherslu á svokallaða starfsgetu sem henti vel til mats á vinnufærni fatlaðs fólks og langveiks. Í fljótu bragði virðist þetta jákvæð þróun eins og segir á heimasíðu Virk: „Starfsgetumat er í eðli sínu flóknara mat en örorkumat þar sem taka þarf tillit til mun fleiri þátta. Meðal annars þarf að skoða möguleika og störf á vinnumarkaði og eins er óraunhæft að meta starfsgetu án þess að einstaklingar fái aðstoð og tækifæri til að efla styrkleika sína og takast á við þær hindranir sem eru til staðar vegna afleiðinga sjúkdóma og/eða slysa.“ Það er þó ljóst að mat, undirbúningur og uppbygging er til lítils ef ekki er í boði fjölbreytt flóra starfa, bæði hluta- og fullra, ásamt viðeigandi aðlögun til að mæta þessum hópi.
Höfundur er blaðamaður.