Nú er lokið því sem átti að verða umræður um orkupakka 3 (OP3) á alþingi, enn sem komið er hafa engin ný rök komið frá ríkisstjórninni önnur en að um neytendamál sé að ræða! Og skammir frá stjórnarliðum, sem beint er að þeim sem vilja ræða málin nánar, hæðni og hlátursrokur frá utanríkisráðherra.

Er ekki löngu komið að því að ríkisstjórnin færi okkur raunveruleg rök sín fyrir OP3 og sannindi um gæði hans samkvæmt orkustefnu ESB, og skýringu á EES samninginum í heild og þeim skilyrðum og kvöðum sem fylgja orkupökkum hans? Til upplýsingará OP1 og OP2 í þessu sambandi má benda á grein Rögnu Árnadóttir í tímaritinu ,,Úlfljóti”. Í grein sinni segir hún: ,,Þegar litið er yfir þróun orkulöggjafar Evrópusambandsins, eins og hún kemur fyrir sjónir í fyrsta og öðrum orkupakkanum, er rauði þráðurinn sá að setja á fót innri markað fyrir raforku og auka þannig samkeppni og tækifæri til fjárfestinga í starfsemi sem áður var njörvuð niður í einokunarumhverfi og ríkisrekstri”. Samkvæmt greininni stefna orkupakkarnir að því, að efla samkeppni, auka fjárfestingar og draga úr ríkisrekstri á raforkumarkaði.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum, sem komið hafa úr ýmsum áttum (öðrum en frá ríkisstjórninni) er meginmarkmið ríkisstjórnarinnar að koma orkugeira Íslands undir stjórn orkustofnunar ESB (ACER), og einkavæða orkumarkaði. Þá er óumflýanlegt að þegar orkumarkaðurinn á Íslandi er kominn undir stjórn erlendra markaða, að orkuverð margfaldist hér á landi. Heyrst hefur að einstakir stjórnmálamenn, skynji þróunina og hafi tryggt sér land og vatnsföll undanfarið til raforkuframleiðslu! Ætla stjórnvöld og alþingi nú að samþykkja OP3 af ótta við að styggja EES samstarfið? Eða eru kannski aðrir og fleiri ógnarkraftar að verki?

Mikill meirihluti alþingis hefur lýst sig fylgjandi orkupakkanum. En meðal almennings á Íslandi er mikill meirihluti á móti pakkanum. Hvers vegna vinnur ríkisstjórnin ekki fyrir fólkið í landinu? Hvaða hagsmunir eru mikilvægari en hagsmunir kjósenda, sem veittu alþingismönnum umboð sitt?

Auk þess sem þegar hefur verið nefnt, furðar það undirritaðan að umhverfisverndarsamtök á Íslandi séu fylgjandi OP3, en tali ekki gegn honum, og segi jafnvel að hann varði ekki náttúruvernd. Sum hafa jafnvel óskir um að sæstrengur komi til Íslands hið allra fyrsta. Ég spyr einnig hvort náttúruverndin á Íslandi séu orðin gegnsýrð af pólitík?

Þegar orkupakki 1 og 2 var samþykktur bólgnaði raforkukerfið út, eitt fyrirtæki varð að tveimur og rafmagnsverð hækkaði. Þeir sem unnu við þetta þá, voru margir sáttir sögðu að breytingar væru tækifæri (fleiri vel launuð störf í boði) en aðrir vildu að sótt yrði um undanþágu frá orkupakka 2! Svo varð ekki og arður nýju einkafyrirtækjanna á íslenskum orkumarkaði bara jókst. Það er líklega of seint að fá undanþágur frá OP1 og OP2. En af hverju er ekki látið reyna á undanþágu frá OP 3? það hefur sýnt sig í öðrum samningum hér á landi og annars staðar, t.d. í Noregi, að Evrópudómstóllinn viðurkennir ekki neinar einhliða breytingar aðila að svona samningum, heldur verða breytingarnar að skrifast inn og viðurkennast bæði af einstökum hlutaðeigandi löndum (t.d. Íslandi eða Noregi) og hinum samningsaðilanum EES eða ESB. Því er nauðsynlegt að synja samningnum í núverandi mynd og semja upp á nýtt um nýjan samning.

Gangur orkumála síðustu áratugi

Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð voru aðfallsgöngin að Fljótsdalsvirkjun höfð mikið sverari en þörf var á til að flytja vatnið frá Hálslóni til virkjunar - en hvers vegna var það gert? Kunnugur héllt því fram, að það væri „ til að seilat mætti síðar í vatn frá Jökulsá á fjöllum til raforkuframleiðslu“!

Þegar línurnar til álversinns á Reyðarfirði voru byggðar, voru þær hafðar fjórum sinnum of stórar en þurfti fyrir álverið sjálft - og hvers vegna var það gert? Haft var á orði, að þetta væri „besta leiðin á Austurlandi frá raforkukerfinu við Fljótsdalsvirkjun til sjávar fyrir sæstreng frá Íslandi til Evrópu“!

Þegar Landsvirkjun var með kynningarfundi hér áður fyrr, var oftlega talað um sæstreng til Evrópu og sagt að „ef sæstrengur kæmi þá þyrfti alltaf að vera til reiðu 1000MW raforku í landinu“. Sem þýðir að virkja þyrfti 50% meira en nú þegar hefur verið gert. Hvers vegna hefur Landsvirkjun engin orð um það nú?

Landsnet sækir fast að fá stórar 220kV línur frá Blönduvirkjun um Norðurland og til Fljótsdalsvirkjunar. Á sama tíma og gamla byggðalínan milli Kröflu og Fljótsdals er aðeins 25% lestuð. Samt sem áður vill Landsnet auka flutningsgetu þarna á milli og stækka hana um 300%. Ofan Blönduvirkjunar er fyrirhugaður vindmyllugarður - hefur Landsnet mögulega í huga útflutning þaðan á rafmagni um sæstreng? Landsnet hefur ekki ennþá, að áliti undirritaðs, lagt fram haldgóðar ástæður fyrir þessari nýju línu milli Kröflu og Fljótsdals!

Um daginn í dag

Ef væntanlegir vindmyllugarðar í Dalasýslu verða t.d. að veruleika, þá eiga eigendur þeirra (meðal annara stjórnmálamenn dagsinns í dag, þ.á.m. einn ráðherra) kröfu á Landsnet um flutning á raforkuframleiðslu þaðan með nýjum línum, hvert á land sem er, meðal annars til Austurlands! Og hver myndi greiða fyrir lagningu, viðhald og jafnvel rekstur þeirra háspennulína?

Af hverju að afhenda EES yfirþjóðlegt vald, yfirráð yfir orkuauðlindum Íslands ef ekki er ætlunin að sameinast raforkukerfi Evrópu og koma á samkeppni með lagningu sæstrengs til Evrópu og í framtíðinni að tengja jafnvel Asíu og Afríku þar við? Undirritaður vill ekki leggja náttúru Íslands í þann pott!

Þeir sem hafa unnið við raforkuframleiðslu og flutning á Íslandi sjá skýrar í gegnum þessa hluti. Þeir, sem að auki þekkja til aðstæðna í Noregi varðandi sæstrengslagnir þaðan og sölu rafmagns úr landi til Evrópusambandsins, benda á að þeir aðilar, sem hafa hugsað sér að sjá um flutning raforkunnar séu meir eða minna klárir með strenginn til Íslands. Þeir vilja einnig meina að þessi strengur geti flutt allt að 1000MW, og ef sæstrengurinn komi „þá þurfi að virkja Hvalárvirkjun og 20 aðrar jafnstórar virkjanir, í það minnsta (allt að þrjár Kárahnjúkavirkjanir) og líklega talsvert meira en það, til vara og til að dekka töp á leiðinni“.

Um það hvort að við getum ráðið því hvort að sæstrengur komi eða ekki, og þá með samþykki alþingis skiptir einhverju máli. En ekkert dugir annað en „að þjóðin ákveði sjálf með þjóðaratkvæðageiðslu og með tveggja - þriðju meirihluta atkvæða“ svo að þessu sé treystandi að mati undirritaðs! Þeir hagsmunaaðilar sem hlut eiga að máli, eru vissir um að hafa sinn vilja fram, þeir hafa á sínu valdi æðstu ráðamenn. Umtalsverðu fé hefur nú þegar verið varið í að undirbúa framleiðslu strengs til flutnings raforku frá Íslandi til Bretlands, og rannsókn á væntanlegri leið hans til Austurlands yfir Færeyjahrygg er hafin (sjá mynd og slóð að neðan).

Skip.png

http://greenbarrel.com/2019/06/06/atlantic-superconnection-importing-low-carbon-electricity-from-iceland/?fbclid=IwAR1A5PGLhcC2zOa3x1b_81Bht9IXJeknXb9Ti3iMbY81akp6kQAVgpGBpYU

Undirritaður segir NEI TAKK“, afþakka strenginn fyrir hönd Íslands. Hann vill bæta því við „að strengirnir muni að öllum líkindum verða TVEIR, annar yrði til vara, því viðgerðir á sæstreng geta verið erfiðar og taka langan tíma.

Hér má einnig benda á „10 góðar ástæður til að segja nei við orkupakkanum samtakanna ORKUNNAR OKKAR“

Andstaðan gegn OP3 er liður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga nú í dag, og hún mun halda áfram!

Undirritaður er rafiðnaðarmaður og hefur starfað við uppbyggingu raforkukerfis Íslands.