Í vor kallaði formaður Dómarafélagsins eftir því að sumarið yrði nýtt til að undirbúa betur ráðstafanir sem grípa gæti þurft til í haust, verði faraldurinn enn í fullu fjöri. Tilefnið var löggjöf sem tryggja átti að mál gætu áfram fengið meðferð fyrir dómi, þrátt fyrir samkomutakmarkanir vegna faraldursins. Þannig var ákveðið að skýrslutökur og önnur meðferð mála gæti farið fram með notkun fjarfundabúnaðar. Frumvarpið var unnið af dómstólasýslunni, en eyðilagt af allsherjarnefnd Alþingis áður en það var samþykkt af Alþingi, með breytingu sem kvað á um að aðeins aðilar máls heyrðu það sem fram færi en ekki aðrir.

Með þessari ónýtu löggjöf, sem enn er í gildi, var skilyrði stjórnarskrárinnar um opinbera málsmeðferð varpað fyrir róða röksemdalaust með smávægilegri en afdrifaríkri orðalagsbreytingu.

Formaður Dómarafélagsins, sem einnig er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann myndi ekki geta beitt umræddri löggjöf enda bundinn af stjórnarskránni. Hann lýsti vonbrigðum með að ekkert samráð var haft við Dómarafélagið við meðferð málsins.

Þrátt fyrir að hafa gleymt að ræða við dómara um fyrrnefnda lagasetningu vita bæði þingmenn og ráðherrar hversu mikilvægt samráð við helstu haghafa er, eins og kom skýrt fram í vor þegar greidd voru atkvæði um frumvarp Pírata um afnám refsinga við vörslu neysluskammta. Frumvarpinu var hafnað, ekki síst á þeim grundvelli að skort hefði samráð við samningu þess.

Þess var einnig getið við umræður um fyrrnefnt frumvarp Pírata að nauðsynlegt væri, í þágu vandaðrar lagasetningar, að leita til refsiréttarnefndar um breytingar á refsilöggjöfinni. Ekki þarf þó að leita langt aftur í tímann til að rifja upp lagasetningu sem hent var upp á örfáum dögum af hálfu sprunginnar ríkisstjórnar til að sefa reiði almennings sem risið hafði upp vegna upplýsinga um að hataðir einstaklingar hefðu fengið uppreist æru í gölluðu og ógegnsæju kerfi. Á síðustu dögum kjörtímabils þeirrar skammlífu ríkisstjórnar var réttur dómfelldra manna til að fá uppreist æru felldur brott og með honum möguleikar þeirra á að endurheimta borgaraleg réttindi sín. Beðið var með hina hlið málsins þar til eftir kosningar. Við samningu hins hraðsoðna frumvarps var ekkert samráð haft við refsiréttarnefnd sem vissi ekki af frumvarpinu fyrr en búið var að leggja það fram.

Ákvæði laga um skilyrði fyrir ýmsum borgaralegum réttindum, hvernig menn glata mannorði sínu og endurheimta það, hafa verið lengi í gildi. Það hefði þurft vandaða ígrundun og yfirlegu áður en rokið var til og þeim breytt.

Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á þessu fyrirkomulagi eru betri en þær sem fyrir voru. Aðdragandi breytinganna og pólitísk meðferð þeirra var hins vegar ekki til eftirbreytni.

Nú þegar stefnir í þungan vetur fyrir stjórnsýslu landsins er óskandi að Alþingi setji vandvirkni á oddinn, enda geta mistök í lagasetningu haft afdrifaríkar afleiðingar. Þegar um er að ræða mikilsverð réttindi einstaklinga ríður sérstaklega á að vanda til verka.