Það hefur varla farið fram hjá neinum að breska konungsfjölskyldan hefur undanfarnar vikur staðið frammi fyrir allmikilli krísu í tengslum við hertogahjónin af Sussex, þau Harry og Meghan, og hlutverk þeirra innan krúnunnar. Snemma í janúar tilkynntu hjónin á Instagram-síðu sinni að þau hygðust draga sig í hlé frá hefðbund­num störf­um kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar og eyða meiri tíma í Norður-Ameríku. Eftir langa og stranga fjölskyldufundi lýsti Elísabet Bretadrottning því yfir að hjónin myndu fram­veg­is ekki bera kon­ung­lega titla sína og ekki fá fjár­muni fyr­ir að sinna op­in­ber­um kon­ung­leg­um skyld­um. Fátt hefur verið meira rætt í Bretlandi og nágrannalöndum undanfarnar vikur og jafnvel sjálft Brexit hefur fallið í skuggann af krísunni, sem hefur verið nefnd Megxit.

Í tengslum við „starfslok“ hertogahjónanna hafa vaknað upp spurningar í tengslum við vörumerkið Sussex Royal. Hjónin hafa notað vörumerkið síðan í apríl 2019, meðal annars á fyrrnefndri Insta­gram-síðu sinni, auk þess sem þau halda úti vefsíðu og Twitter-reikningi með sama nafni. Hjónin fengu vörumerkið jafnframt skráð fyrir ýmsar tegundir af vörum og þjónustu, bæði í Bretlandi og víða um heim. Sem dæmi um vörur og þjónustu sem vörumerkið er skráð fyrir eru bækur, tímarit, póstkort, fatnaður og skór af ýmsu tagi og fjáröflunarstarfsemi. Af vörumerkjaskráningum hjónanna verður ekki annað séð en að það hafi verið og sé enn ætlun þeirra að byggja upp sterkt vörumerki til nota í ýmsum tilgangi, bæði viðskiptalegum og í góðgerðarstarfsemi.

Álitaefnið varðandi vörumerkið Sussex Royal í kjölfar Megxit snýr að því hvort hjónunum sé áfram stætt á því að eiga og nota vörumerkið þegar þau hafa í grundvallaratriðum sagt störfum sínum sem starfsmenn konungsfjölskyldunnar lausu. Geta þau áfram notað vörumerki sem inniheldur orðið Royal þegar þau eru ekki beinlínis lengur „royal“? Vörumerkjalög í Bretlandi takmarka skráningar á vörumerkjum sem innihalda orðið Royal nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sem dæmi eru takmarkanir á því að skrá vörumerki sem innihalda orðið fyrir ýmsar vörur, til dæmis hágæða postulínsvörur, sýningar, ferðaþjónustu og góðgerðarstarfsemi. Rökin að baki þessum takmörkunum eru að öllum líkindum þau að vörumerki fyrir umræddar vörur eða þjónustu sem innihalda orðið Royal eru líkleg til að gefa til kynna tengsl við konungsfjölskylduna og tilgangur reglnanna að koma í veg fyrir að ótengdir aðilar hagnist á slíkum vörumerkjum.

Geta þau áfram notað vörumerki sem inniheldur orðið Royal þegar þau eru ekki beinlínis lengur „royal“?

Sé staðan skoðuð frá lagalegu sjónarmiði verður ekki annað ráðið en að Harry og Megan séu í sterkri stöðu til að eiga áfram og nota vörumerkið Sussex Royal, þrátt fyrir nýliðna atburði. Þó að þau muni ekki lengur sinna konunglegum skyldum eða bera konunglega titla sína er staðreyndin sú að þau eru áfram konungleg og sannarlega hluti af konungsfjölskyldunni. Þannig hafa þau ekki formlega misst konunglega titla sína, þau munu bara ekki nota þá lengur.

Lagalega séð eru þau því í fullum rétti til að nota vörumerkið Sussex Royal áfram. Það verður þó að teljast afar líklegt að nánari rammi verði settur um notkun hjónanna á vörumerkinu í samráði við drottninguna sjálfa. Að öllum líkindum munu hjónunum verða settar þröngar skorður á slíkri notkun og þess gætt að notkunin samræmist gildum krúnunnar. Það er því ólíklegt að þau muni kynna á markað náttfatalínu undir vörumerkinu Sussex Royal á næstunni. Líklegra er að vörumerkið verði áfram fyrst og fremst notað í tengslum við góðgerðarstarfsemi.

Tíminn einn mun leiða í ljós hvaða leiðir hertogahjónin af Suss­ex munu fara í þessum efnum. Þetta litla dæmi sýnir þó að ekkert er vörumerkjaréttinum óviðkomandi, ekki einu sinni fjölskyldudrama hjá bresku krúnunni.

Höfundur er lögmaður hjá LEX.