Frumvarp menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla er nú loksins komið fram á Alþingi. Það er óhætt að segja að mikill vandræðagangur hafi einkennt allt þetta ferli sem rekja má til skipunar starfshóps fyrir um þremur árum síðan. Til stóð að ráðherra mælti fyrir málinu í gær en svo fór að það var tekið af dagskrá eftir að fundi hafði ítrekað verið frestað meðan reynt var að ná samkomulagi um þingstörfin fram til jóla.

Ráðherrann kynnti í september á síðasta ári ýmsar tillögur til að styrkja íslenska tungu en hluti af þeim sneri að stuðningi við fjölmiðla. Drög að sjálfu fjölmiðlafrumvarpinu voru svo kynnt í lok janúar á þessu ári en þá sagðist ráðherrann bjartsýnn á frumvarpið hlyti góðar viðtökur. Þær vonir rættust hins vegar ekki því frumvarpið var harðlega gagnrýnt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Þegar málið var svo loks lagt fram á Alþingi síðasta vor hafði það tekið smávægilegum breytingum. Til að koma til móts við Sjálfstæðismenn hafði verið bætt við klausu í greinargerð um að skoðað yrði hvort breyta ætti tekjuuppbyggingu Ríkisútvarpsins. Var þar meðal annars vísað í umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Þetta dugði þó engan veginn til að slá á gagnrýnisraddir innan Sjálfstæðisflokksins. Einn þingmaður lét hafa það eftir sér að aldrei áður hafi frumvarp verið afgreitt út úr þingflokknum með jafnmiklum fyrirvörum og fjölmiðlafrumvarpið. Nýjasta útgáfa frumvarpsins er í öllum aðalatriðum eins og sú síðasta. Þó er búið að lækka endurgreiðsluhlutfall af kostnaði fjölmiðla við að afla og miðla fréttum úr 25 prósentum í 18 prósent.

Enn eru Sjálfstæðismenn óánægðir með frumvarpið sem skýrir af hverju það kom fram á Alþingi síðastliðinn föstudag en ekki í september eins og málaskrá ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Ráðherrann hefur greinilega gefist upp á því að sannfæra Sjálfstæðismenn um ágæti frumvarpsins og vill láta þingið útkljá málið.

Rekstrarvandi fjölmiðla er vel þekktur og auðvitað mun fjölmiðlafrumvarpið eitt og sér ekki bjarga öllu. Aðgerðirnar sem þar eru boðaðar myndu samt sem áður nýtast vel og þá sérstaklega þeim minni fjölmiðlum sem uppfylla skilyrði um stuðning. Flestir ef ekki allir stjórnmálamenn tala á tyllidögum um hversu mikilvægu hlutverki fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi. Nú reynir á að þeir láti ekki karp sitt um leiðir að því markmiði að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla tefja enn frekar framgang þess verkefnis.

Það var auðvitað orðið ljóst fyrir nokkru síðan að ekki tækist að afgreiða fjölmiðlafrumvarpið fyrir áramót. Miðað við hversu illa hefur gengið að koma því á dagskrá þingsins fara vonirnar um að það gerist yfir höfuð dvínandi.