Vítalía Lazareva, sem ásamt einhvers konar kærasta sínum, hefur nú verið kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar, er langt í frá sú eina sem glímir við freistnivandann sem skapast hefur við það að sönnunarbyrði réttarríkisins hefur verið aftengd. Það þarf nefnilega ekki meira en prívat fésbókarsíðu til þess að birta ákæru fyrir dómstóli götunnar sem á augabragði úrskurðar um sekt og sér að auki upp á eigin spýtur um refsinguna. Eins og í Vítalíumálinu margfaldast þungi fallaxarinnar ef birtingarformið er þar til gerður hlaðvarpsþáttur blaðamanns við Stundina. Sá spjallþáttur hefur reyndar ekkert að gera með rannsóknarblaðamennsku heldur kranablaðamennsku þar sem hægt er að láta móðan mása um satt eða logið og láta svo aðra fjölmiðla endurtaka málflutninginn í öllum helstu fréttatímum sínum.

Í tilfelli mögulegra kynferðisafbrota er þetta sérlega auðvelt þar sem fyrrnefndur dómstóll götunnar hefur ákveðið að þolendum skuli einfaldlega alltaf trúað. Hin hliðin á þeim bjánalega peningi er þá líka sú að meintum gerendum, sem mögulega reyna að bera hönd fyrir höfuð sér, skuli aldrei trúað. Það er ótrúlegur fáránleiki á okkar upplýstu tímum og í okkar siðmenntaða samfélagi, sem almennt viðurkennir að enginn maður geti verið svo sekur að hann eigi sér ekki einhverjar málsbætur. Þess vegna eigi hann rétt á hlutlægri rannsókn fagaðila, bestu mögulegu málsvörn og vel ígrunduðum dómi færustu manna. Og nú skal áréttað á tímum hins öfgafulla og óþolinmóða rétttrúnaðar að konur eru líka menn.

Við höfum séð það í Vítalíumálinu að aftakan í máli „þriggja miðaldra karlmanna“ eins og Ríkisútvarpið kaus að kalla fórnarlömb Vítalíu í fréttum sínum fyrr í vikunni fór fram á augabragði. Til þessa hefur enginn hinna sakfelldu átt sér viðreisnar von. Enn þá síður gátu þeir áfrýjað úrskurði þessa miskunnarlausa dómstóls eða beðið um endurupptöku málsins. Múgurinn úrskurðar í eitt skipti fyrir öll og snýr sér svo að næstu ofsóknum.

Gögn virðast hins vegar sýna fram á það með óyggjandi hætti, a.m.k. ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum sem staðfest hefur verið af lögmönnum, að þungamiðja Vítalíumálsins snúist um tilraun til stærstu fjárkúgunar Íslandssögunnar. Á milli línanna má jafnvel lesa, eða að minnsta kosti ímynda sér, að núverandi eða a.m.k. fyrrverandi kærustuparið, sem nú hefur verið kært fyrir fjárkúgun, hafi mögulega hannað atburðarásina, eða a.m.k. frá byrjun reynt að nýta hana í samstarfi um fébætur. Væntanlega var markmiðið þá að skipta hagnaðinum eða njóta hans saman.

Vald alþýðudómstólsins sem vinnur ávallt á huglægum nótum en aldrei á hlutlægum býr til lúmskan freistnivanda. Meira að segja samtök á borð við Stígamót eru tilbúin til þess, eins og dæmin sanna, að taka við fébótum, eða ættum við að segja mútum eða kúgunarfé, fyrir meint, en ósönnuð, kynferðisbrot. Það var reyndar merkilegt að heyra fyrr í vikunni einhliða spjall við talskonu Stígamóta í kjölfar fjárkúgunarfréttanna. Nánast ekkert var minnst á þetta stærsta fjárkúgunarmál Íslandssögunnar heldur spjallað um málið út frá reynsluheimi „þolendanna“. Ekki var heldur snert á vangaveltum um það hver eða hverjir væru mögulega hinir raunverulegu þolendur í þessu tiltekna máli. Kannski leyfir andrúmsloft rétttrúnaðarins, sem sérstaklega er hafður í hávegum hjá Ríkisútvarpinu, ekki að „þrír miðaldra karlmenn“, og að auki þjóðþekktir og í góðum álnum, geti verið hinir raunverulegu þolendur upploginna saka.

Ég veit auðvitað að skyndiaftökur almannarómsins eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Samt má velta því fyrir sér hvort ástandið sé óvenjuslæmt hér á landi vegna smæðar samfélagsins annars vegar og hins vegar vegna þess að gamla víkingablóðið renni okkur enn í æðum. Á blómaskeiði víkinganna þurfti heldur ekkert að kæra eða dæma. Ef einn var drepinn hér var annar drepinn þar til að jafna leikinn. Ef á þurfti að halda var bókhaldið svo stemmt af með nokkrum rollum eða silfurpeningum.

Lögmál frumskógarins, villta vestursins og víkingatímans eru auðvitað í meira lagi viðsjárverð. Slaufunarmenning samfélagsmiðlanna er grein af sama meiði sem grínistinn Rowan Atkinson kallaði á sínum tíma „stafrænan samnefnara miðaldaskríls sem gengi um götur í leit að einhverjum til að brenna“. Og þessi orð hans voru ekki sögð í gríni heldur fúlustu alvöru.

Ef til vill gjöldum við öll innst inni varhug við þessum lögmálum á vissan hátt en sum okkar eru því miður reiðubúin til þess að setja kíkinn fyrir blinda augað á grundvelli þess að nauðsyn brjóti lög. Þegar lögin sjálf í orðsins fyllstu merkingu eru annars vegar getum við hins vegar ekki gefið neinn afslátt. Sönnunarbyrðin er grundvallaratriði í réttarríkinu enda betra að tíu sekir gangi lausir en að einn saklaus sé sviptur frelsi sínu og jafnvel lífi.