Mannréttindi fólks hafa í langan tíma verið takmörkuð vegna Covid-faraldursins. Það væri hættulegt að taka því sem sjálfsögðum hlut. Við búum við óeðlilegt ástand og verðum að muna að svo er, en ekki sætta okkur þegjandi við það og hætta að spyrja um nauðsyn og tilgang allra þeirra hafta sem við höfum þurft að búa við.

Forsvarsmenn sóttvarna hér á landi eiga ekki að bregðast illa við gagnrýni eða spurningum sem þeim þykir óþægilegt að svara. Þeir sem spyrja erfiðra spurninga gera það vegna þess að þeir vita að brýnt er að vakta frelsi og mannréttindi á tímum þar sem hætta er á að stjórnvöld taki sér of mikið vald, með þeim afleiðingum að fólk endurheimti aldrei að fullu það sem tekið var af því. Covid má ekki stuðla að þessu.

Endalaust má deila um það hversu miklar og harðar sóttvarnir eiga að vera en eitt á að vera öllum ljóst og það er að fólk á rétt á að endurheimta frelsi sitt að fullu. Stjórnmálamenn eiga að leggja áherslu á þetta og það eiga sóttvarnayfirvöld sömuleiðis að gera, en ekki skammast út í þá sem eru gagnrýnir á aðgerðir.

Á dögunum, þegar tilkynnt var í enn eitt skiptið um hertar aðgerðir vegna Covid, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að ekki væri í boði að hengja haus og vera fúll. Þessi orð lýsa ekki sérlega mikilli nærgætni í garð þeirra sem verða fyrir verulegu fjárhagstjóni, atvinnumissi eða þjást af vanlíðan vegna harðra Covid-aðgerða.

Þessar aðgerðir bitna á fólki og reynast mörgum afar þungar og erfiðar. Það er lítilsvirðing að tala um fýluköst í því sambandi.

Covid-höftin hafa mismunandi áhrif á fólk. Þeir sem búa við fjárhagslegt öryggi og eru þar að auki lítt félagslyndir una sér alveg ágætlega heima hjá sér. Hið sama verður ekki sagt um fólk sem sækir í félagsskap utan heimilis og vill vera í margmenni.

Á sama tíma verður fólk sem er í eðli sínu kvíðafullt enn kvíðnara. Mörg ungmenni viðurkenna að ástandið hafi slæm áhrif á andlega líðan þeirra. Einhver þeirra gætu þurft langan tíma til að ná andlegu jafnvægi á ný.

Furðulega lítið er lagt upp úr því að róa fólk, frekar er verið að auka kvíða þess með alls kyns viðvörunum, sem iðulega eru mjög mótsagnakenndar. Kannski þykir henta að fólk sé hrætt, það er þá ekki að spyrja óþægilegra spurninga eða efast um mikilvægi aðgerða.

Það blasir hins vegar við að sóttvarnaaðgerðir leysa ekki allan vanda heldur skapa ný vandamál.