Kjósendur í Reykjavík standa frammi fyrir tveimur valkostum. Að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða óbreytt ástand í Reykjavík.

Stjórnarmynstur í Reykjavík hefur verið keimlíkt undanfarna þrjá áratugi. Sitjandi borgarstjóri hefur verið í áhrifastöðu nánast óslitið í tuttugu ár, og hefur verið einkar lunkinn við að koma nýjum hjólum undir vagninn þegar á hefur þurft að halda. Við getum ekki hætt á meira af því sama.

Borgin ber þess merki að nýrra áherslna er þörf. Bera þarf virðingu fyrir þeim fjármunum sem Reykjavíkurborg hefur úr að spila. Borgin þarf að tryggja leikskólapláss, raunverulegt val í samgöngum og húsnæði fyrir alla aldurshópa. Ráðast þarf í hreinsunar- og umhirðuátak. Draga þarf úr skuldasöfnun og skapa svigrúm til skattalækkana.

Allt þetta er mögulegt og meira til, en til þess þarf að hleypa nýju blóði að. Sjálfstæðisflokkurinn er eini valkosturinn við núverandi ástand. Valið er skýrt.