Um síðustu helgi stóð ég frammi fyrir siðferðilegu álitamáli. Sonur minn fékk poka af gúmmíböngsum í barnaafmæli. Í stað þess að klára bangsana strax eins og hin börnin stakk hann einum í vasann sem hann hugðist njóta síðar. Þegar heim var komið reyndist bangsinn týndur. Tjónið olli óstöðvandi harmagráti.

Ég sagðist skyldi gefa honum nýjan gúmmíbangsa úr poka sem vildi svo vel til að ég átti inni í skáp. Viðbrögðin urðu önnur en ég átti von á.

Í stað þess að taka gleði sína á ný spurði sonurinn hvort systir hans, sem einnig var í afmælinu, fengi líka gúmmíbangsa. Ég svaraða því játandi. Sá stutti þvertók fyrir slík málalok. Systir hans hafði borðað alla bangsana sína. Af hverju átti hún að fá einum fleiri bangsa en hann sem hafði sýnt stillingu og treint sér sælgætið?

Ég hótaði því að enginn fengi gúmmíbangsa ef hann léti ekki af uppsteytnum. En drengurinn gaf sig ekki. Það var aðeins eitt í stöðunni. Að þylja yfir barninu, sem alið er upp sem heiðingi, eina þekktustu dæmisögu Biblíunnar.

Salómon konungur Ísraelsríkis var annálaður fyrir visku. Toppi ráðsnilldar hans var náð þegar heimsóttu hann tvær portkonur. Með sér höfðu konurnar nýfætt barn en báðar sögðust þær móðir þess. Vildu þær að konungurinn leysti úr ágreiningi þeirra.

„Færið mér sverð,“ skipaði Salómon. Hann kvaðst ætla að höggva barnið í tvennt og skipta því þannig jafnt á milli kvennanna. Annarri konunni leist vel á lausnina. Hin bað Salómon að leggja frá sér sverðið, sú fyrri mætti halda barninu. Við það varð ljóst hvor kvennanna var móðirin.

Sama dag og sonur minn fékk gefins gúmmíbangsapoka var ný ríkisstjórn kynnt á Kjarvalsstöðum. Stjórnmálaskýrendur klóruðu sér í höfðinu yfir róttækum breytingum á ráðuneytum sem bútuð voru niður og málaflokkum dreift eins og smælki milli nýrra ráðherra. „Þetta eru óvenjulega miklar breytingar við stjórnarmyndun,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Ólafur var örlátur í greiningu sinni og sagðist ekki efast um að hugsun lægi þarna að baki þótt betri útlistanir vantaði á hvers vegna þetta var gert.

Fleira vakti upp spurningar um hvatana á bak við stjórnarmyndunarviðræðurnar. Ráðherrastólum var fjölgað um einn. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði uppátækið ganga þvert á tillögur í rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið þar sem mælst var til að ráðuneytum yrði fækkað. Benti hún á að ríkisstjórn hennar hefði fækkað ráðuneytum niður í átta en nú væru þau orðin tólf.

Molar í konfektkassa

Nýr dómsmálaráðherra er Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Nú fer að síga á seinni hlutann á ferli Jóns og líklegt er að verið sé að verðlauna hann fyrir góðan stuðning,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson. Kaupin á eyrinni eru þó flóknari en svo.

Þrátt fyrir tólf ráðherrasæti, þrátt fyrir að ráðherraefnin veldu sér málaflokka úr sundurtættum ráðuneytum eins og mola úr jólakonfektkassa, virtust valdsins gæði ekki nægja til að svala hungri frammáfólks stjórnmálaflokkanna. Bjarni Benediktsson brá sér því í gervi Salómons konungs og lagði til að dómsmálaráðuneytinu yrði skipt á milli Jóns og flokkssystur hans, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem tæki við eftir átján mánuði. Ólíkt í tilfelli portkvennanna steig enginn fram og lét sig hagsmuni ráðuneytisins varða. Sverðið fékk að falla.

Sagan um Salómon konung hafði engin áhrif á viðhorf sonar míns til gúmmíbangsanna. Hann kaus eyðileggingu frekar en eftirgjöf. Hann hafði þó eitt sér til málsbóta: Hann er fimm ára. Það sama verður ekki sagt um forystufólk stjórnmálaflokka landsins.