Þrátt fyrir mótþróa og gremju fráfarandi forseta Bandaríkjanna er ljóst að Joe Biden mun búa um sig og sína í Hvíta húsinu í janúar. Þetta er eitt af því sem veit á gott þegar horft er til ársins 2021.

Kosningabaráttan í Bandaríkjunum var sérkennileg. Tveir aldraðir menn börðust um hylli kjósenda og þrátt fyrir það hafa aldrei fleiri kjósendur greitt atkvæði. Út af fyrir sig er það ánægjulegt, en hefur líka orðið að þrætuepli. Fjöldi þeirra sem greiddu atkvæði utan kjörfundar réði mestu um þessa miklu kosningaþátttöku. Fráfarandi forseti hefur gert allt sitt, og jafnvel meira, til að tortryggja kosningafyrirkomulag í eigin landi og véfengt úrslitin.

Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta, sem hafði allar forsendur til að koma reglum í þessu efni á þann veg sem honum þóknast. Gagnrýnin missir því marks og eftir situr sneypulegur Trump og ætti að fara að setja ofan í kassa.

Yfirstandandi ár mun rata á spjöld sögunnar. Ekki aðeins vegna þess að forsetinn var kosinn úr Hvíta húsinu, þótt það hafi gerst áður. Margs annars er að minnast. Hérlendis var síðastliðinn vetur harður og grimmur og náttúruöflin tóku dýrmæt mannslíf. Einhvern veginn tók eitt við af öðru og virtist engan enda taka, stórviðri og fár. Janúar og febrúar voru harðdrægir veðurfarslega, ekki síst vegna þess að ýmislegt hafði gengið á í þeim efnum undir lok ársins á undan.

Þá tók að bera á fréttum utan að um veiru sem virtist til alls líkleg. Framan af skelltu margir skollaeyrum við en áhyggjum annarra óx ásmegin. Svo hertist takturinn og undir lok febrúar virtist ljóst að kæmi að því að veiran næði landi hér. Það varð.

Smit greindist svo fyrst hér á landi fyrir einni meðgöngulengd síðan og þá hófst martröðin sem staðið hefur nær sleitulaust síðan. Enn sér ekki fyrir endann á því.

Talnafarganið frá sóttvarnayfirvöldum ærir alla og fólk bíður milli vonar ótta eftir því hvernig staðan er um ellefuleytið hvern dag. Bara það dugar til að æra óstöðugan.

Það sem mestu skiptir er hvernig stendur til að koma okkur út úr þessum aðstæðum nú þegar hillir undir bólusetningar. Þó að óvissa sé um þróun faraldursins, hlýtur að vera hægt að birta meginlínur um hvernig staðið verður að bólusetningu og hversu langan tíma áformað er að hún taki.

Svo er kosningavetur fram undan. Um hvað munu boðaðar kosningar að ári snúast?

Þær ættu að snúast um hvernig við komum samfélagi okkar út úr öllu veseninu sem þessi árans veira hefur komið í kring. Hverjum er best treystandi til að leiða okkur út úr því fargani öllu? Enn sem komið er bólar ekki á öðru en að fyrst og fremst sé lausnin sú að opna ríkisfjárhirslurnar upp á gátt og ausa úr sameiginlegum sjóðum skattborgara til að jafna það allt.

Fólk ætti að sjá að það eitt og sér dugar ekki.

Alla reikninga þarf að gera upp um síðir.