Lýðræðið er viðkvæmt og ekki sjálfgefið. Það sannaði valdaránstilraunin sem fráfarandi forseti Bandaríkjanna framdi á miðvikudag, þegar stuðningsmenn hans ruddust inn í þinghúsið í Washington til að stöðva staðfestingu á kjöri næsta forseta. Biden sigraði Trump í lýðræðislegum kosningum, í landi sem stundum hefur verið nefnt vagga lýðræðisins.

Lýðræðisríki virða niðurstöður kosninga, líka þegar valdhafar eru ekki sáttir, hvort sem um ræðir alþingiskosningar, forsetakosningar eða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Fráfarandi forseti hefur með markvissum hætti nýtt sér veikleika bandarísks samfélags til að sannfæra stóran hóp landsmanna um að ójöfnuðurinn og fátæktin sem þau búa við sé elítunni að kenna. Elítan samanstandi af menntafólki, fjölmiðlum og öðrum sem gagnrýna handhafa valdsins. Að það sé elítunni að kenna að þau hafi hvorki efni á menntun né heilbrigðisþjónustu. Lygarnar hafa verið svo margar að erfitt er að henda reiður á þeim, endurtekningarnar svo margar að fjöldi fólks trúir þeim. Hávaðinn svo mikill að enginn kemst hjá því að heyra hann.

Misskiptingin er áþreifanleg og ameríski draumurinn, jöfn tækifæri fyrir alla, hefur snúist upp í martröð. Eftir stendur tvískipt þjóð. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hatursorðræða er notuð til að snúa hlutum á hvolf og byggja undir hagsmuni valdhafa.

Fjölmiðlar sem eru frjálsir undan stjórn valdhafa og geta gagnrýnt gjörðir þeirra eru súrefni lýðræðisins. Án þeirra deyr lýðræðið, smátt og smátt, ein lygi í einu, þar til sannleikurinn skiptir ekki lengur máli. Þar til við sitjum allt í einu og horfum á valdaránstilraun, í beinni útsendingu á CNN, í vöggu lýðræðisins.