Undirritaður bjó lengi í Þýzkalandi, og er enn tengdur ýmsum fyrirtækjum og margvíslegri þjónustu, sem þar er á boðstólum. Reglulega koma þannig alls konar varnings- og þjónustutilboð inn á borðið hjá mér.

Á dögunum barst mér fjármögnunartilboð, þar sem ársvextir voru 0,68%. Sem dæmi var tekið, að, ef mig vantaði 27.000 evrur (4.000.000 kr.), til að endurnýja bíl, innréttingar eða fara í heimsreisu, þá gæti ég fengið það fé með þessum kjörum.

Lánið gæti t.a.m. verið til 84 mánaða (7 ára), og væri þá mánaðarleg afborgun með vöxtum 329,21 evra (49.500 kr.). Heildarendurgreiðsla lánsins yrði þannig 27.670,44 evrur.

Sem sagt; lán upp á 27.000 evrur, sem dreift yrði yfir 7 ára endurgreiðslutímabil, væri að fullu endurgreitt með 27.670,44 evrum.

Þannig kostaði það aðeins 670,44 evrur (100.000 kr.) að hafa og nýta sér 27.000 evrur (4.000.000 kr.) yfir þetta árabil.

Ef svona lán væri tekið hér á Íslandi, væru ársvextir frá 7,14% (Íslandsbanki) upp í 8,4% (Landsbanki). Lengstur lánstími er þó 5 ár hér.

Ársvextir af 4.000.000 kr. miðað við 0.68% eru 27.200 kr., ársvextir af 4.000.000 kr. miðað við 7,9% (meðal­tal) eru 316.000 kr.

Árlegur sparnaður, miðað við lántöku í evrum, 288.800 kr.

Þessi hagstæðu skilyrði fyrir evru-lántakendur byggjast á styrk og stöðugleika evrunnar, sem 25+4 evrópskar þjóðir nýta sér, sem sitt gjaldmiðilsverkfæri.

Evran er sterkasti og stöðugasti gjaldmiðill heims. Þegar evran var innleidd fyrir rúmum 20 árum, var gengi milli evru og Bandaríkjadals reiknað 1,07 Bandaríkjadalir í einni evru. Nú eru 1,18 dalir í evru. Evran hefur styrkst gagnvart Bandaríkjadal.

Þess vegna vilja líka atvinnurekendur, fyrirtæki og fjárfestar vinna með evru til að tryggja öryggi, fyrirsjáanleika og lágmarks vexti. Evran hvetur þannig atvinnurekendur og fjárfesta til framsóknar og athafna.

Og, lágvaxtastefnan, sem evran tryggir, er í þágu þeirra, sem minna eiga og þurfa að fjármagna sitt líf – íbúð, bíl eða annað – með lánum. Á kostnað þeirra, sem fjármagnið eiga. Stórfellt jafnréttismál!

Eftirfarandi smáþjóðir sjá sínum hag bezt borgið með evrunni: Finnland, Eistland, Lettland, Litáen, Írland, Lúxemborg, Austurríki, Slóvakía, Slóvenía, Svartfjallaland, Kósovó, Grikkland, Kýpur, Malta, Vatíkanið, Mónakó, San Marínó og Andorra.

En, líka Þýzkaland, sem hafði sitt ofursterka þýzka mark fyrir, sá sér hag í að taka upp evruna. Svo og Belgar, Hollendingar, Frakkar, Spánverjar, Portúgalar og Ítalir.

Danir og Færeyingar hafa svo evruna með óbeinum hætti, eða dulbúna sem danska krónu og færeyska krónu, en með beintengingu við svokallaðan ERM2-mekanisma ESB fá þessir gjaldmiðlar styrk evrunnar, án þess að heita evra. Það sama gildir í meginatriðum um búlgarskt lev og kuna í Króatíu.

Það er með ólíkindum, að við, sem eina smáþjóð álfunnar, skulum ekki hafa borið gæfu til að taka upp evruna, jafn mikið og við hefðum bætt okkar stöðu með evru, einstaklingar og fyrirtæki, og jafn mikið og við höfum liðið undan óstöðugleika og kostnaði krónunnar!

Hvernig má það vera, að almenningur sjái þetta ekki!?

Ég reiknaði það út fyrir par árum og skrifaði um það blaðagrein, að, á sama tíma og íbúðarkaupandi í evru-landi var að borga sína íbúð 1,5 sinnum, auðvitað með vöxtum, væri sambærilegur íbúðarkaupandi hér að greiða sína íbúð 3,5 sinnum.

Ég skil af hverju ákveðnir stjórnmálamenn, atvinnuvegir og Seðlabanki hafa viljað halda í krónuna, en hún er þeim mikilvægt og öflugt valdaverkfæri.

Með því að stuðla að auknum styrk eða veikingu krónunnar, er hægt að færa mikla fjármuni milli manna; einstaklinga, fyrirtækja og atvinnuvega, án þess, að almenningur hafi nokkuð um það að segja.

Þannig geta misvitrir og misheiðarlegir stjórnmálamenn, aukið eða minnkað tekjur og útgjöld, eignir og skuldir, manna, með afleiðingum fyrir alla, án þess að almenningur komi þar nokkuð að.

Seðlabanki getur líka keyrt gengi krónunnar upp og niður með sömu afleiðingum, án þess, að þeir, sem því stýra, séu kjörnir fulltrúar.

Þannig er mér fyrirmunað að skilja, að almenningur – kjósendur í landinu – skuli ekki hafa fyrir löngu séð í gegnum þetta spillta valdakerfi og tekið af skarið; farið í stöðugleikann, öryggið og þá lágvexti, sem evra ein getur tryggt!?

Ef evran kæmi, kæmu líka evrópskir bankar inn á markaðinn, sem myndu stórauka samkeppni hér og tryggja miklu hagkvæmari almenn kjör og þjónustu, en bankarnir þrír, sem fyrir eru.

Þeir hafa reyndar hafa þrjú nöfn og aðgreinda starfsemi, en virðast samstíga í flestu eða öllu. Kannske mætti kalla þessa bankastarfsemi einokunarstarfsemi. Alla vega ríkir algjör fákeppni í bankastarfseminni, en hingað kemur enginn erlendur banki meðan krónan er okkar gjaldmiðill. Hana vill enginn erlendur banki sjá eða heyra, enda er virði hennar erlendis ekkert. Núll.