Ferðafrelsinu feginn er prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson floginn á vit ævintýranna í fyrirlestraferð til þess að kynna bók sína Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers sem kom út í miðju kófinu snemma á þessu ári. Frjálshyggjuveislan byrjar í París þar sem Hannes stýrir málstofu sem hann skipulagði sjálfur um bókmenntir og kapítalisma. Þaðan liggur leiðin til Póllands þar sem hann flytur erindi upp úr bókinni í Varsjá á þriðjudaginn í fyrrverandi höfuðstöðvum pólska kommúnistaflokksins og því kannski ekki alveg á heimavelli.

Rétt að byrja


Öðru máli gegnir um næsta föstudag þegar Hannes flytur aðalræðuna á ráðstefnu í Vín um austurrísku hagfræðingana Menger, Mises og Hayek en í bók sinni segir hann frá persónulegum kynnum af þeim síðastnefnda. Uppselt er á þann fyrirlestur vegna fjöldatakmarkana. Bókin um hægri-hugsuðina verður síðan aftur á lofti í Búdapest þegar Hannes kynnir hana áður en hann flytur ræðu um Thatcher­isma. Síðan skreppur hann til Prag til þess að ræða um Ísland og Eystrasaltslöndin 12. nóvember í þessari fyrirlestraferð sem mun vera sú fyrsta af mörgum sem Hannes ætlar að fara þöndum frjálshyggjuvængjum.