Trúarlíf okkar Íslendinga er fjölskrúðugt og með þeim innflytjendum sem bæst hafa í hóp nýrra Íslendinga verður flóran enn blómlegri. Fjölmenning kallar á nýjar leiðir til að skilja og miðla trúararfleifð og með nokkurri einföldun má segja að það séu tvær leiðir færar í þeim efnum.

Önnur leiðin er að fela hið trúarlega, á grundvelli þess að ekki skuli halda á lofti því sem aðgreinir okkur, og hin er að fagna fjölbreytileika trúarhefða.

Ríkissjónvarpið hefur þar viðamiklu hlutverki að gegna og RÚV sker sig úr í samanburði við Norðurlöndin þegar kemur að miðlun á trúarmenningu á Íslandi. Útvarpsguðsþjónustur eru dýrmæt hefð sem standa ber vörð um, en samanborið við Norðurlöndin gætir þar fábreytni.

Á Norðurlöndum fá fjölbreytt trúfélög sýndar samkomur í útvarpi og sjónvarpi. Opinberir miðlar í nágrannalöndum okkar sinna allir því hlutverki að sjónvarpa frá guðsþjónustum.

Danska ríkisútvarpið starfrækir svokallaða „DR kirken“, þar sem eru sjónvarpsútsendingar frá guðsþjónustum dönsku kirkjunnar. Sænska sjónvarpið SVT flakkar á milli kirkna á sunnudagsmorgnum og hefur í upphafi stutta umfjöllun um hverja kirkju fyrir sig, söfnuð og prest.

Lögð er áhersla á að sýna sem flestar kirkjur og greina frá sögu þeirra og munum. Reglulega er leitað til safnaða á borð við Hjálpræðisherinn og sent út frá samkomum þeirra. Norska ríkissjónvarpið NRK sendir út guðsþjónustur frá kirkjum landsins og er með stutta umfjöllun um takt kirkjuársins og kirkjur landsins í upphafi, líkt og í Svíþjóð, og Finnar hafa útsendingar á YLE frá guðsþjónustum á sænsku og finnsku.

Jafnvel Færeyingar með sitt litla opinbera sjónvarp KFV sýna vikulegar sjónvarpsútsendingar frá guðsþjónustum í mismunandi kirkjum. Ríkissjónvarpið hefur skyldum að gegna við að sinna miðlun á trúar- og menningararfi þjóðarinnar. Þeirri skyldu væri sinnt af sóma með sjónvarpsútsendingum frá kirkjum landsins, þar sem færi saman helgihald og fræðsla um kirkjur til sjávar og sveita.

Það er óhætt að fullyrða að RÚV sé eftirbátur sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum þegar kemur að útsendingum frá helgihaldi og það er áhugavert að spyrja hvað liggur þar að baki?

Um er að ræða ódýrt sjónvarpsefni sem í öllum tilfellum er unnið í samstarfi við heimamenn.Fríkirkjan í Reykjavík hefur árlega fengið úthlutað einni útvarpsguðsþjónustu í kringum afmæli safnaðarins og í ár var jafnvel þeirri tímasetningu hnikað í óþökk safnaðarins.

Það færi vel á því að þriðja stærsta trúfélag landsins fengi meira rými í Ríkisútvarpinu.Fríkirkjan tók upp og framleiddi til sýningar útvarpsguðsþjónustuna þann 26. september síðastliðinn og sinnti þarmeð skyldu sem RÚV ætti með réttu að rækja.

Þar má heyra og sjá jazzaða sálma, barnakórinn við Tjörnina, magnaðan einsöng og hugleiðingu frá formanni Píeta-samtakanna.„Útvarpsguðsþjónustan sem sást“ er sýnd á þeim netmiðlum sem Fríkirkjan í Reykjavík hefur yfir að ráða.