Undanfarið hefur hvarflað að mér hvort einhver hrossakaup milli stjórnarflokkanna séu nú komin á gjalddaga. VG fær miðhálendisþjóðgarð og sjálfstæðismenn fá að selja hlut í banka, líka með hraði. Það kæmi a.m.k. ekki á óvart. Maður veltir líka fyrir sér tilganginum með þessum þjóðgarði, þar sem nú þegar gilda lög og reglur um framkvæmdir og umgengni fólks á hálendinu, sem og annars staðar. Þar að auki eru vernduð og friðlýst svæði á hálendinu fjölmörg og vel skilgreind, undir stjórn Umhverfisstofnunar, og um þau gilda skýrar reglur. Ekkert ófremdarástand er á hálendinu þó ýmis hagsmunasamtök haldi því fram, og reyni að gera þá tortryggilega sem ekki skrifa upp á þetta frumvarp. Það má kannski benda þeim á það að mun fleiri eru andvígir miðhálendisþjóðgarði en fylgjandi, skv. skoðanakönnun Gallup í janúar.

Við höfum lög um náttúruvernd, sem kveður á um bann við hvers konar náttúruspjöllum, ásamt algjöru banni við utanvegaakstri. Þar er einnig að finna heimild Umhverfisstofnunar til að takmarka eða banna alla umferð um svæði þar sem veruleg hætta er á skemmdum vegna ágangs ferðamanna. Miðhálendisþjóðgarður (MHÞ) hefur í raun engu við þetta að bæta. Kannski snýst þetta allt saman um völd, undir yfirskini náttúruverndar. Umhverfisráðherra hefur a.m.k. ekki dottið í hug að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannski óttast hann niðurstöðuna. Nei, þjóðin skal ekki spurð hvort hún kæri sig um stofnanavæðingu óbyggðanna. Í frumvarpinu er ekkert nýtt að finna varðandi náttúruvernd, sem ekki er nú þegar í náttúruverndarlögum, en því meira um heimildir til þess að takmarka umferð og tjöldun, með reglugerðum. Þær koma eftir að lögin hafa verið samþykkt. Ásamt einhvers konar lögregluvaldi sem veita á landvörðum, til þess að hafa eftirlit með fólki og vísa því úr þjóðgarðinum ef það hlýðir ekki fyrirmælum. Mögulega er hin mikla andstaða gegn þessu frumvarpi skiljanleg í ljósi þess. Það verður a.m.k. lítið eftir af sjarmanum sem gerir fjallaferðir eftirminnilegar og ánægjulegar.

Í frumvarpinu má einnig finna ríkar heimildir til gjaldtöku, sem væntanlega eiga að dekka hluta rekstrarkostnaðar, sem hlýtur að verða gríðarlegur. Til dæmis hefur ávallt verið tap á rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs, þrátt fyrir massatúrisma undanfarinna ára. Jafnvel með metfjölda ferðamanna og víðtækri gjaldtöku, var uppsafnað tap VJÞ 2014–2018 rúmlega 218 milljónir.

Ofríki Vatnajökulsþjóðgarðs

Þar sem þessi nýi risaþjóðgarður verður bein framlenging af Vatnajökulsþjóðgarði (VJÞ), er enn frekari ástæða til að staldra við. Ég efast um að útivistarfólk hafi gert sér grein fyrir því ofríki sem átti eftir að fylgja stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2008. Loforð um samráð við útivistarfélög voru að engu höfð, þegar á reyndi. Hestamenn, reiðhjólafólk, jeppamenn o.fl. voru allt í einu orðnir annars flokks ferðamenn innan þjóðgarðsins og þeim settar þröngar skorður í sínum fjallaferðum. Því ekki mátti trufla öræfaupplifun göngufólks.

Almannaréttur aftengdur

Almannaréttur er tryggður í náttúruverndarlögum og veitir hann m.a. öllum rétt til að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi. Nema þar sem sérlög gilda. Þar er átt við friðlönd, náttúruvætti og þjóðgarða. Í þjóðgarði getur ráðherra og stjórn þjóðgarðsins í raun skert almannaréttinn að vild, með nýjum reglugerðum og stjórnunaráætlunum. Almannarétturinn er þannig séð óvirkur í þjóðgörðum, þ.e. hann er eingöngu eins virkur og þjóðgarðurinn heimilar. Það er alveg eðlilegt að einhver skerðing á almannarétti sé til staðar í þjóðgarði. En er eðlilegt að hátt í 40% Íslands verði þjóðgarður? Til samanburðar, þá þekja þjóðgarðar í Svíþjóð einungis 1,5% af landinu. Með miðhálendisþjóðgarði gæti þar með ferðafrelsi á öllu hálendinu orðið háð einhverri stjórnunaráætlun eða nýrri reglugerð. Slíkt býður líka upp á grófa mismunun eftir ferðamáta. Ég held að stofnanavætt hálendi sé ekki heillandi tilhugsun hjá flestum Íslendingum. Með tilheyrandi her landvarða sem hafa eftirlit með gestum, og víðtækri gjaldtöku í ofanálag. Björgunarsveitir hafa hins vegar sinnt eftirliti og gæslu á hálendinu undanfarin ár, ásamt því að upplýsa og fræða erlenda ferðamenn um umgengnisreglur á hálendinu. Hálendisvaktin svokallaða. Þetta hefur reynst vel og verið í sátt og samlyndi við þjóðina.

Raunveruleg vernd miðhálendisins er fólgin í því að halda því eins og það er. Með vegum og slóðum sem falla að landinu. Þannig er líka hægt að forða því frá massatúrisma. Við getum hafnað hugmyndum um stórvirkjanir á hálendinu án þess að stofna risaþjóðgarð. Höldum frelsinu á hálendinu lifandi. Náttúruverndin er nú þegar til staðar.